Hugleiðingar veðurfræðings
Allkröpp lægð gengur norðaustur yfir landið og rignir víða, en mildar hitatölur í öllum landshlutum. Norðan- og norðaustankaldi og kólnar síðar í kvöld og nótt. Á morgun er spáð norðvestan- og vestankalda, en allhvössu eða hvössu norðaustantil. Víða rigning eða slydda, snjókoma á heiðum fyrir norðan, en birtir til sunnan- og vestanlands. Á mánudag kemur enn ein lægð af Grænlandshafi, sem hreyfist ákveðið austur yfir land. Lægðin dregur svala norðanátt með sér og snjóar þá um tíma á norðurhelmingi landsins, en rignir sunnan heiða, jafnvel slydda til fjalla.
Með sanni má því segja að vorhret sé í vændum næstu tvo sólarhringa. Gular veðurviðvaranir vegna hríðar eru í gildi og ferðalangar ættu að gefa því gaum, einkum þeir sem hyggjast ferðast fyrir norðan. Spá gerð: 13.05.2023 16:18. Gildir til: 14.05.2023 00:00.
Veðurhorfur á landinu
Norðaustan 5-13 m/s, rigning og milt veður, en vestlægari seinna í kvöld og hvessir talsvert syðst og kólnar.
Norðvestan og vestan 8-13 m/s í nótt og morgun, en 13-18 um landið norðaustanvert síðdegis. Rigning eða slydda víða um land, en snjókoma á heiðum norðantil og léttir til á Suður- og Vesturlandi eftir hádegi. Hiti 1 til 9 stig, hlýjast á Suðausturlandi. Lægir heldur, rofar víða til annað kvöld og kólnar heldur.
Spá gerð: 13.05.2023 18:26. Gildir til: 15.05.2023 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á mánudag:
Gengur í norðlæga átt 8-15 m/s, en suðvestlægari suðaustantil fram eftir degi. Slydda eða snjókoma, en rigning sunnanlands. Styttir að mestu upp síðdegis, fyrst vestantil. Hiti í kringum frostmark á norðanverðu landinu, en hiti 1 til 6 stig syðra.
Á þriðjudag:
Hæg breytileg átt og bjart að mestu fyrripartinn en suðlæg átt 5-13 og rigning með köflum eftir hádegi, úrkomulítið norðaustantil. Hiti 1 til 8 stig, hlýjast sunnantil.
Á miðvikudag:
Suðlæg átt 3-10 og úrkomulítið en austlægari og rigning eða súld með köflum sunnanlands um kvöldið. Hiti 6 til 12 stig.
Á fimmtudag (uppstigningardagur):
Norðlæg átt og víða rigning eða súld með köflum en styttir upp vestantil seinnipartinn. Hiti 5 til 10 stig.
Á föstudag:
Breytileg átt, skýjað með köflum en yfirleitt þurrt. Vaxandi suðaustanátt og þykknar upp um kvöldið. Hiti 8 til 13 stig yfir daginn.
Á laugardag:
Útlit fyrir suðlæga átt og rigningu með köflum, einkum suðaustantil. Úrkomuminna fyrir norðan og einnig vestanlands síðdegis. Hiti breytist lítið.
Spá gerð: 13.05.2023 20:56. Gildir til: 20.05.2023 12:00.