Hugleiðingar veðurfræðings
Þegar þetta er skrifað nú í morgunsárið er dýpkandi lægð stödd suður af landinu og fer hún allhratt til norðurs. Í dag gengur því í austan og norðaustan 5-13 m/s og fer að rigna, fyrst um landið sunnanvert. Hiti 6 til 12 stig. Miðja lægðarinnar á síðan að vera yfir austanverðu landinu seint í kvöld og þá snýst vindur tl vestlægari áttar, það bætir í og kólnar. Á morgun er spáð norðvestan og vestan 8-13, en 13-18 um landið norðaustanvert. Víða rigning eða slydda, en þurrt að kalla á Suður- og Vesturlandi seinnipartinn. Snjókoma á heiðum á norðanverðu landinu. Hiti frá 1 stigi í innsveitum fyrir norðan, upp í 9 stig syðst. Kólnar meira annað kvöld.
Það má því segja að það sé hret í vændum á morgun og ferðalangar ættu að gefa því gaum, sérílagi þeir sem hyggja á ferðalög á norðurhelmingi landsins.
Spá gerð: 13.05.2023 06:32. Gildir til: 14.05.2023 00:00.
Veðurhorfur á landinu
Gengur í austan og norðaustan 5-13 m/s með rigningu, fyrst sunnantil. Hiti 6 til 12 stig. Vestlægari í kvöld, bætir í vind og kólnar.
Norðvestan og vestan 8-13 m/s á morgun, en 13-18 um landið norðaustanvert. Víða rigning eða slydda og snjókoma á heiðum norðantil, en bjart með köflum og yfirleitt þurrt á Suður- og Vesturlandi eftir hádegi. Hiti 1 til 9 stig, hlýjast syðst. Lægir heldur, rofar víða til annað kvöld og kólnar heldur.
Spá gerð: 13.05.2023 09:38. Gildir til: 15.05.2023 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á mánudag:
Norðlæg átt, 5-13 m/s, en suðvestlægari suðaustantil fram á kvöld. Slydda eða snjókoma, en rigning sunnanlands. Styttir að mestu upp um kvöldið. Vægt frost á norðanverðu landinu, en hiti 1 til 6 stig syðra.
Á þriðjudag:
Hæg breytileg átt og bjart með köflum fram eftir degi, en síðan suðaustan 8-13 m/s og fer að rigna sunnan- og vestanlands. Hiti 1 til 8 stig, hlýjast sunnantil.
Á miðvikudag:
Suðlæg átt, 3-10 m/s og dálítil væta af og til, en yfirleitt þurrt og bjart á austanverðu landinu. Hiti 6 til 12 stig.
Á fimmtudag (uppstigningardagur):
Hæg og mild suðvestlæg átt og rigning eða súld með köflum.
Á föstudag:
Ákveðin sunnanátt með súld og rigningu, en þurrt norðaustanlands og hlýtt þar.
Spá gerð: 13.05.2023 07:55. Gildir til: 20.05.2023 12:00.