Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur undirritað reglugerð sem heimilar útgáfu stafrænna ökuskírteina. Gert er ráð fyrir að hægt verði að sækja þau í símann síðar í mánuðinum. Stafræn ökuskírteini verða framvegis jafngild hefðbundnum ökuskírteinum á Íslandi.
Verkefnastofan Stafrænt Ísland hefur unnið tæknilausn í samstarfi við ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðuneytið svo sækja megi stafræn ökuskírteini í snjallsíma. Handhafi ökuskírteinis mun þá geta sótt stafræna útgáfu í gegnum vefinn www.island.is eftir að hafa auðkennt sig með rafrænum skilríkjum.
„Það er mikið framfaraskref að fá ökuskírteini í snjallsímann og veitir fólki augljós þægindi. Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar að hið opinbera bjóði upp á fleiri stafrænar lausnir og betra er vart hægt að hugsa sér. Við hvetjum fólk til að sækja sér ökuskírteini í símann um leið og hafa það þannig alltaf meðferðis á ferðum um landið í sumar,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Innleiðing stafrænna ökuskírteina er samstarfsverkefni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, sem ber ábyrgð á umferðarlöggjöf og reglum um ökuskírteini, og dómsmálaráðuneytis, sem fer með málefni ríkislögreglustjóra og sýslumanna. Ríkislögreglustjóri gefur út stafrænu ökuskírteinin en sýslumenn gefa út hefðbundin prentuð skírteini í umboði ríkislögreglustjóra.
Ökuskírteini eru almennt viðurkennd gagnkvæmt milli EES ríkja en svo verður ekki um stafræn ökuskírteini, þar sem þau uppfylla ekki kröfur Evróputilskipunar um ökuskírteini. Þau verða aðeins gild á Íslandi.