Samkeppniseftirlitið leitar sjónarmiða vegna kaupa Samkaupa hf. á 14 verslunum Basko
Samkeppniseftirlitið hefur nú til rannsóknar samkeppnisleg áhrif samruna vegna kaupa Samkaupa hf. á eignum 14 verslana af Basko verslunum ehf. Þar sem um er að ræða samruna á mörkuðum sem varða almenning miklu hefur Samkeppniseftirlitið ákveðið að óska opinberlega eftir sjónarmiðum almennings og fyrirtækja um áhrif samrunans á samkeppni. Til að gefa almenningi og öðrum hagaðilum kost á að kynna sér málið hefur Samkeppniseftirlitið birt samrunatilkynningu málsins á heimasíðu sinni.
Rannsókn málsins hófst eftir að fullnægjandi samrunatilkynning barst Samkeppniseftirlitinu þann 25. júní sl. Samrunatilkynning
Rannsóknarefni Í málinu ber Samkeppniseftirlitinu að rannsaka hvort viðkomandi samruni hindri virka samkeppni með því að markaðsráðandi staða eins eða fleiri fyrirtækja verði til eða slík staða styrkist, eða að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti, sbr. 17. gr. c samkeppnislaga.
Við rannsóknina hefur Samkeppniseftirlitið m.a. til skoðunar hver staðbundin áhrif samrunans kunna að vera á svæðum þar sem keppinautum mun fækka í kjölfar samrunans. Hefur Samkeppniseftirlitið sérstaklega til skoðunar hvort þeir keppinautar sem eftir standa á tilteknum svæðum muni veita samrunaaðilum nægilegt samkeppnislegt aðhald í kjölfar samrunans. Í þessu samhengi horfir Samkeppniseftirlitið m.a. til dagvörumarkaðar á Akureyri og í Reykjanesbæ. Einnig horfir Samkeppniseftirlitið til mögulegra áhrifa á tilteknum svæðum á höfuðborgarsvæðinu.
Sjónarmiða óskað
Með tilkynningu þessari er öllum sem áhuga hafa gefið tækifæri til þess að koma sjónarmiðum á framfæri vegna samrunans. Er þess óskað að sjónarmið berist Samkeppniseftirlitinu eigi síðar en 27. júlí nk. Hægt er að senda þau á netfangið samkeppni@samkeppni.is eða með bréfpósti: Samkeppniseftirlitið, Borgartún 26, 125 Reykjavík – Pósthólf 5120.
Málsmeðferðin – tímafrestir Samkeppniseftirlitið hefur 25 virka daga til að taka afstöðu til þess hvort ástæða sé til frekari rannsóknar á samkeppnislegum áhrifum samruna. Reynist svo vera, hefur eftirlitið 70 virka daga til viðbótar til að taka ákvörðun í málinu.