Uppfært 01:36 Belgísk hjón sem leitað var að á Kili í kvöld eru fundin, heil á húfi. Tugir björgunarsveitafólks í Árnessýslu hófu leit að þeim um hálftíuleytið í kvöld, en þau urðu viðskila við göngufélaga sína á Kili síðdegis í dag og villtust langt af leið. Þau gátu sent nákvæma staðsetningu með snjallsíma til björgunarliðsins sem var þá þegar á réttri leið, til þeirra. Á fimmta tug björgunarsveitafólks tók þátt í leitinni á tólf tækjum.
Allar björgunarsveitir í Árnessýslu voru kallaðar út á tíunda tímanum í kvöld til að leita að hjónum sem að eru týnd á Kili. Hjónin lögðu upp í göngu frá Gíslaskála um miðjan dag í dag ásamt tveimur öðrum. Þau urðu svo viðskila við ferðafélaga sína sem skiluðu sér til baka í Gíslaskála um fimmleytið, segir í tilkynningu frá Landsbjörgu.
Fyrstu hópar björgunarsveita lögðu af stað á kjöl um klukkan hálf tíu í kvöld til þess að hefja leit. Lagskýjað er á svæðinu og hiti er undir tíu gráðum.
Ferðafélagarnir fóru brátt að hafa áhyggjur af hjónunum og náðu sambandi við þau í síma. Þau reyndust rammvillt og síðast þegar í þau náðist, um áttaleytið, höfðu þau ekki hugmynd um hvar þau voru.
Ekki hefur náðst samband við þau síðan og lögðu fyrstu hópar björgunarfólks af stað á Kjöl klukkan hálftíu í kvöld, til að hefja leit út frá þeim upplýsingum sem fyrir liggja. Lágskýjað er á Kili og hiti undir tíu gráðum. Aðgerðum björgunarsveita er stýrt frá Selfossi, í samráði við aðra viðbragðsaðila.