Þann ellefta júní síðastliðinn samþykkti Alþingi ný umferðarlög. Þar er að finna ákvæði sem heimilar handhöfum stæðiskorta (P korta) að aka um göngugötur og leggja í merkt stæði. Málefnahópur ÖBÍ um aðgengi hefur unnið ötullega að þessu máli eins og sjá má af frétt af áherslum ÖBÍ frá því í febrúar. Hreyfihamlað fólk hefur hingað til ekki notið undanþágu frá akstursbanni um göngugötur, en það breytist nú, þegar lögin taka gildi, þann fyrsta janúar næstkomandi.
Heimildin er skýr, og segir að þrátt fyrir að umferð vélknúinna ökutækja um göngugötu sé óheimil, er umferð akstursþjónustu fatlaðs fólks, handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða, lögreglu, slökkviliðs og sjúkraflutninga heimil.
Því má segja að loksins standi göngugötur hreyfihömluðum opnar, og þeir geti, eftir gildistöku laganna, nú loksins nýtt sér þær eins og ófatlaðir.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, tekur sérstaklega á aðgengismálum og í honum er tekið fram að þau borgaralegu, menningarlegu, efnahagslegu, stjórnmálalegu og félagslegu réttindi sem samningurinn mælir fyrir um taka til allra einstaklinga en samningurinn tekur á þeim aðgerðum sem aðildarríki verða að grípa til í því skyni að tryggja að fatlað fólk njóti þeirra til jafns við aðra. Á meðal þeirra réttinda sem samningurinn tekur sérstaklega á eru réttur til þátttöku í stjórnmálum og opinberu lífi og réttur til þátttöku í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi.
Samningurinn staðfestir einnig bann við mismunum fatlaðs fólks og þar segir að aðildarríki hans skulu gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang til jafns við aðra að hinu efnislega umhverfi, að samgöngum, upplýsingum og samskiptum, þar með talið upplýsinga og samskiptatækni og kerfi þar að lútandi, og að annari aðstöðu og þjónustu sem veitt er almenningi, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Fyrrnefndar ráðstafanir, sem skulu meðal annars felast í því að staðreyna og útrýma hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi, skulu meðal annars ná til bygginga, vega, samgangna og annarar aðstöðu innan dyra sem utan, þar með talið skóla, íbúðarhúsnæðis, heilbrigðisþjónustu og vinnustaða.
Þetta þýðir að aðildarríki þurfa að huga að hvernig þau ætla að tryggja að fatlað fólk fái notið réttinda sinna, enda er ekki sjálfgefið að eiga réttindi og fá nýtt sér þau.
Heimild handhafa stæðiskorta til aksturs um göngugötur er liður í að tryggja þessi réttindi og það er von ÖBÍ að sveitarfélög taki fullt tillit til þessa við breytingar og hönnun göngugatna. Fatlað fólk vill fara um göngugötur líkt og aðrir, og vilja og þurfa að sækja þangað þjónustu, verslun, búið við göngugötu eða sótt fólk heim sem þar býr. Nú hefur enn einni aðgengishindruninni verið rutt úr vegi.