Fyrirtækið Carbfix hefur hlotið 16 milljarða styrk frá Evrópusambandinu til að byggja nýja hreinsistöð í í Straumsvík. Styrkurinn er sá stærsti sem íslenskt fyrirtæki hefur fengið frá Evrópusambandinu, rúv.is birti fyrst fréttir af þessum háa styrki sem á sér enga hliðstæðu á Íslandi.
Styrkurinn sem um ræðir, kemur úr Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins og er veittur til að byggja nýja móttöku- og förgunarmiðstöð í Straumsvík. Stöðin á að heita Coda Terminal. Þangað er áætlað að flytja koltvísýring úr útblæstri frá iðnaði í Evrópu með skipum. Í Coda Terminal stöðinni í Straumsvík verður koltvísýringnum dælt í geymslutanka og hann síðan bundinn með tækni sem fyrirtækið hefur þróað. Gert er ráð fyrir að styrkupphæðin nemi ríflega þriðjungi af heildarkostnaði verkefnisins, segir í frétt rúv.is.
Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix segir styrkveitinguna mikla viðurkenningu fyrir Carbfix. „Við viljum að Ísland sé í ákveðnu forystuhlutverki þegar kemur að föngun og förgun því hér eru kjöraðstæður til varanlegrar og öruggrar kolefnisförgunar. Aðferð okkar byggir auðvitað á íslensku hugviti og það er okkar sýn að hún geti nýst víða um heim,“ segir Edda Sif í sama viðtali og er áætlað að starfsemi í Straumsvík hefjist um mitt ár 2026 og nái fullum afköstum 2031.