Boðuð gjaldtaka í jarðgöngum á eftir að koma íbúum Fjarðabyggðar afskaplega illa segir bæjarstjórinn. Hann segir veggjöld og skattlagningu eldsneytis vera tvísköttun og að það þurfi að gæta jafnræðis. Þetta kemur fram í fréttum ríkisútvarpsins í dag.
Þá segir að Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hafi sagt í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöld að gjald muni verða tekið í öllum göngum til að standa undir rekstri þeirra og að standa undir fjármögnun jarðganga.
Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri Fjarðabyggðar segir að tvenn jarðgöng muni tengja sveitarfélagið. „Íbúar þurfa að fara á milli hverfa til að sækja þjónustu, sækja vinnu, sækja menntun. Þá hljómar þetta afskaplega illa fyrir okkur í þeirri mynd eins og þetta er birt núna. Og það er gríðarlega mikilvægt að innviðaráðherra og innviðaráðuneytið skoði það mjög vel, hvaða útfærslur þeir ætla að hafa í þessu frumvarpi.“ Nánar er hægt að lesa um málið á vef ríkisútvarpsins.
Umræða