Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur skipað starfshóp sem hefur það hlutverk að meta stöðu landshlutasamtaka sveitarfélaga með það að markmiði að skýra hlutverk þeirra og stöðu gagnvart sveitarfélögum annars vegar og ríkinu hins vegar.
Skipan starfshópsins byggir á samstarfssáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis, en þar segir í kafla um byggðamál: „Ríkisstjórnin mun auka samráð við sveitarfélögin um verkefni þeirra og fjárhagsleg samskipti. Skilgreina þarf hlutverk landshlutasamtaka og styrk sveitarfélaga til að rísa undir nauðsynlegri þjónustu“.
Verkefni starfshópsins er að leggja fram tillögur um hvernig landshlutasamtök sveitarfélaga geti betur unnið með sveitarfélögum og styrkt svæðasamvinnu þeirra þannig að sveitarfélög/sveitarstjórnarstigið verði betur í stakk búið til að taka við fleiri verkefnum og tryggja íbúum á landinu öllu nauðsynlega og lögbundna þjónustu. Við vinnu sína skal starfshópurinn eiga víðtækt samráð við fulltrúa sveitarstjórna og samtök þeirra og horfa til stöðu og þróunar sveitarstjórnarstigsins í nágrannaríkjum.
Starfshópurinn er þannig skipaður: Ásgerður Gylfadóttir, formaður bæjarráðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar, formaður starfshópsins, skipuð af ráðherra, Óli Halldórsson, formaður bæjarráðs Norðurþings, skipaður af ráðherra, Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Rakel Óskarsdóttir, bæjarfulltrúi á Akranesi og formaður SSV, tilnefnd af landshlutasamtökum sveitarfélaga. Með hópnum starfar Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Sérstakur ráðgjafi starfshópsins er Eva Marín Hlynsdóttir, lektor við stjórnmálafræðideild Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands.