Karlmaður var handtekinn nú rétt fyrir hádegi við gatnamót Grensásvegar og Miklubrautar. Hann var í mjög annarlegu ástandi og veittist að lögreglukonu við störf. Að sögn mbl.is þurfti að flytja lögreglukonuna með sjúkrabíl á Landspítalann. Hún er sögð hafa verið alblóðug eftir árás mannsins.
Blaðamaður Fréttatímans var á vettvangi þegar að fjöldi lögreglubíla og mótorhjóla komu á svæðið.
Lögregla hefur nú gefið út tilkynningu vegna málsins: „Nú skömmu fyrir hádegi var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi á Grensásvegi. Er lögregla kom á vettvang brást maðurinn ókvæða við afskiptum lögreglu og veittist að þeim.
Í átökunum féllu lögreglumennirnir og maðurinn í götuna með þeim afleiðingum að annar lögreglumannanna skall harkalega með höfuðið í götuna og vankaðist við það.
Hann var í framhaldi fluttur með sjúkrabifreið á Slysadeild til aðhlynningar og er þar ennþá til skoðunar. Maðurinn var handtekinn og færður í fangageymslur lögreglunnar.“ Maðurinn á að hafa gengið á milli bíla sem voru við umferðarljós á Grensásvegi en þegar lögregla reyndi að stöðva hann við það athæfi, hafi maðurinn ráðist á lögreglukonuna.
Umræða