Það eru blikur á lofti. Ýmislegt bendir til að við séum á leið niður í dal eftir að hafa verið á tindi hagsveiflu í langan tíma. Komandi mánuðir eru afgerandi. Stjórnvöld undanfarinna ára hafa ekki nýtt fordæmalítið svigrúm til jafna kjörin nægilega og auka félagslegan stöðugleika. Það þarf ekki sterka raunveruleikatengingu til að sjá að góðærið hefur ekki náð til allra. Stór hópur fólks upplifir það fyrst og fremst gegnum meðaltöl, glanstímarit eða fréttir af launahækkunum tekjuhárra, m.a. okkar hér.
Undanfarið hefur stjórnmálafólk úr ólíklegustu flokkum sagt að stjórnvöld eigi ekki að blanda sér um of í kjarasamninga, það sé hlutverk launþega og atvinnurekenda. Stjórn ríkis er hins vegar ekki eins og hver annar sjoppurekstur og hlutverk stjórnvalda er að skapa öllum landsmönnum viðunandi aðstæður og öryggi. Þess vegna þurfa stjórnvöld einmitt að koma með afgerandi hætti að lausn samninga fram undan. Ég gagnrýni hins vegar seinaganginn og vara við þeirri aðferð að nota slíkt útspil sem skiptimynt á síðustu stundu. Félagshyggjustjórn hefði kynnt slík áform í stjórnarsáttmála.
Stjórnvöld síðustu ára hafa hins vegar fremur unnið þannig að það þyngi samningagerð. Þau hafa hrifsað ávinning af launahækkunum með frystingu persónuafsláttar, lækkunar vaxta og barnabóta og ekki bætt kjör aldraðra og öryrkja nægilega. Forsætisráðherra sagði í ræðunni áðan að stigin væru mikilvæg skref sem færa skattbyrði af tekjulægstu hópunum og tryggðu að þau tekju- og eignamestu legðu meira af mörkum. Skrefin eru hins vegar of lítil hæstv. forsætisráðherra.
Síðustu fimm ár hefur Samfylkingin lagt fram tillögur við afgreiðslu hverra fjárlaga sem snúast einmitt um þetta, hækkun barnabóta, hækkun vaxtabóta og tekjuöflun á móti, m.a. af auðlindagjöldum, en þær hafa allar verið felldar samhljóða af ríkisstjórnum, líka af þessari sem nú situr. Það er vissulega framför að ríkisstjórnin taki í einhverjum atriðum undir með Samfylkingunni í nýjum fjárlögum en þetta eru hænufet sem óvíst er að skili nokkru vegna óstöðugs gjaldmiðils.
Það leiðir svo aftur hugann að því hversu skynsamlegt það er, þegar öllu er á botninn hvolft, að halda fram gagnsemi, jafnvel nauðsyn breiðra ríkisstjórnarflokka sem eru í grundvallaratriðum ósammála, bæði um leiðir og jafnvel markmið. Nú verður auðvitað hver að svara fyrir sig en ég trúi ekki á leiðangur sem gengur út á of mikla eftirgjöf grundvallargilda við kjöraðstæður til þess að breyta samfélaginu í þágu jöfnuðar og réttlætis. Það er nefnilega gleðin yfir áfanganum, samvistir fjölskyldunnar sem skapa ljúfar minningar um undarlega samsetningu á matardiski í fermingarveislu. Roastbeef, graflax, lamb, rauðkál, rækjuhlaup með brúnni sósu saman á disk er ekki áhugavert í sjálfu sér.
Stjórnmál verða að fara að snúast um framtíðarsýn, hvers konar samfélag er skynsamlegt og siðlegt og hvaða leið er að því marki. Ég veit að þar greinir okkur á og við þurfum stundum að gefa eftir. Þó að hrogn og súkkulaði væri hvort tveggja uppistaða í rétti er ólíklegt að hráefnin henti í sömu uppskrift. Stjórnmál eiga ekki að vera huggulegar selskapsklúbbur þar sem augljóst er að allir eigi eða geti unnið saman í ríkisstjórn þó að við getum auðvitað sýnt hvert öðru virðingu og sameinast um einstök góð mál.
Við í Samfylkingunni getum t.d. stutt mótun frekari loftslagsaðgerða en sættum okkur ekki við of lítið fé til sjúkrahúsþjónustu, metnaðarleysi í menntamálum eða ömurlegt úrræðaleysi í húsnæðismálum og aldrei óréttlátt skattkerfi þar sem ekkert er tekið á vaxandi eignaórétti. Það þarf að stíga miklu róttækari skref í átt að jöfnuði til að hægt sé að hefja lífskjarasókn fyrir allan almenning. Búa launafólki, öldruðum og öryrkjum fjárhagslegt öryggi og félagslegt svigrúm. Gera velferðar- og heilbrigðisþjónustuna ódýrari.
Ungt fólk hefur t.d. ekki notið uppgangs síðustu ára. Það hefur verið skilið eftir þrátt fyrir að vera lykillinn að framtíð okkar. Við þurfum átak í húsnæðismálum sem tryggir því og lágtekjufólki hagkvæmar íbúðir til kaups eða leigu á viðráðanlegum kjörum, hækka barnabætur og vaxtabætur enn meira og draga úr skerðingum og lengja fæðingarorlof eins og allt of lengi hefur verið lofað. Umfram allt verðum við hins vegar að fjárfesta í menntun. Það er afgerandi á tímum mikilla tækniframfara og breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Annars drögumst við einfaldlega aftur úr öðrum þjóðum. Góðir skólar eru undirstaða öflugs atvinnulífs þar sem hugvit og nýsköpun verða helsta útflutningsvaran. Ungt fólk í dag getur valið sér hvaða stað í veröldinni til að búa á og við þurfum að bjóða því upp á betri skilyrði ef það á yfir höfuð að hafa áhuga á eða efni að búa á Íslandi.
Við eigum að hætta að festast í viðbrögðum og bútasaumi. Hafa kjark og framsýni til að skapa framtíð sóknarfæra og stöðugleika. Við getum valið frjálslyndi eða stjórnlyndi, framsækni eða íhald og við sjáum öll hvar núverandi ríkisstjórn er staðsett á þeim ási. Þess vegna er nauðsynlegt að gera grundvallarbreytingar þar sem almannahagsmunir ráða, ekki þröngir sérhagsmunir. Breyta gjaldtöku af sameiginlegum náttúruauðlindum, þannig að meiri arður renni til almennings. Endurskoða landbúnaðarkerfið, auka samkeppni og nýsköpun í þágu neytenda. Efna loforð um nýja stjórnarskrá eins og þjóðin hefur samþykkt í atkvæðagreiðslu og síðast en ekki síst nú þegar það er fyrirsjáanlegt að krónan komi almenningi í vandræði enn eina ferðina, þá er nauðsynlegt að vinna að upptöku evru og ganga í Evrópusambandið.
Við höfum mikla hagsmuni af alþjóðlegu samstarfi og getum ekki leyft þjóðernispopúlískum röddum að stefna EES-samningnum í uppnám. Enginn samningur hefur fært okkur meiri velsæld eða tækifæri, en við höfum líka samningsbundnar og siðferðislegar skyldur. Við eigum að taka fullan þátt í baráttu gegn loftslagsáhrifum, leggja meira af mörkum í þróunarsamvinnu og axla ábyrgð á vanda fólks á flótta og loks þurfum við að tryggja betur réttindi og koma sómasamlega fram við innflytjendur og erlent verkafólk sem á stóran þátt í efnahagsuppgangi landsins síðustu ár.
Ísland er auðugt land og það er vandalaust að teikna upp meðaltöl sem sýna almenna velsæld. Munum samt að í skugga meðaltala leynast börn sem búa við skort, ungt fólk í fíknivanda, fjölskyldur á hrakhólum, fátækt fólk, og þó að stjórnvöld komi aldrei í veg fyrir það að fólk verði dapurt, sorgmætt, veikist eða deyi getum við tryggt að öll börn hafi tækifæri til að rækta hæfileika sína og styrkleika óháð efnahag foreldra. Það er hagur allra því mikill jöfnuður er einmitt lykillinn að hamingjusömu, framsæknu og kraftmiklu samfélagi.
Kæra þjóð. Lífið hefur upp á ótal margt að bjóða og við þurfum líka andlega næringu. Þess vegna eigum við að styðja alla til þátttöku í íþróttum, menningu og listum. Árangur okkar þar skiptir miklu fyrir sjálfsmynd lítillar þjóðar og ánægjulegt að fagna góðum árangri síðustu misseri, en í heimi fullum af öfgum þar sem alið er á hatri, tortryggni og hræðslu verður það fyrst og fremst umburðarlyndi, samhjálp og víðsýni sem ákvarðar hvort við erum lítil þjóð eða stór.