Góðir Íslendingar. Við lifum á góðæristímum á alla mælikvarða. Sá annmarki er hins vegar á að eftir sitja þjóðfélagshópar sem búa við bág kjör. Hópar aldraðra, öryrkjar og fjölskyldur á lágum tekjum sýnast gleymd í huga ríkisstjórnarinnar og mega búast við að vera áfram gleymd. Eftir að hafa setið í tæpt ár má ljóst vera að ríkisstjórnin er heldur sljó til augnanna gagnvart þeim í okkar samfélagi sem höllum fæti standa. Allt er við það sama og áður, öryrkjar sitja í manngerðri fátæktargildru og mega þola fjárhagslegar skerðingar reyni þeir með sjálfsbjargarviðleitni að bæta hag sinn.
Í vor sameinuðust allir þingflokkar um tillögu Flokks fólksins um að hætta að skattleggja endurgreiðslur á sjúkra- eða lyfjakostnaði, heyrnartækjum og öðru eins og þetta væru tekjur. Einhverra hluta vegna sést málið ekki á málaskrá ríkisstjórnarinnar, enda þótt samþykkt hafi verið samhljóða þingsályktun sem fól ráðherra að skila slíku frumvarpi nú í haust.
Haldið skal áfram að skattleggja tekjur sem ekki hrökkva fyrir framfærslu samkvæmt viðmiðum sem stjórnvöld hafa sjálf birt. Gagnvart því baráttumáli Flokks fólksins að einstaklingar með tekjur undir 300.000 krónum séu undanþegnir tekjuskatti er haldið fram villandi upplýsingum af ráðuneyti fjármála og látið eins og tillagan sé um að slíkar tilslakanir gagnvart lágtekjufólki og bótaþegum eigi einnig að ná til hálaunamanna.
Þannig fást háar fjárhæðir sem ætlað er að sverta tillöguna. Ríkisstjórnin boðar svo nánasarlegar hækkanir á skattleysismörkum að vart tekur að nefna. Vaxtabætur hafa ekki gengið út eins og ráðgert var vegna úthlutunarreglna og þess vegna er hætta á að útspil ríkisstjórnarinnar í þessu efni reynist hrein sýndarmennska.
Störf ríkisstjórnarinnar sýnast einkennast af værð og kyrrstöðu meðan fólkið kallar á breytingar en ekki sinnuleysi um hag hinna lakast settu. Hún hefur reynst ófáanleg til að taka á málefnum tekjulægsta fólksins og millitekjufólks og fæst ekki til að leysa vanda öryrkja og bótaþega. Reynslan frá liðnu þingi er að hún leggur stein í götu okkar sem reynum hér á Alþingi að höggva utan af lakast setta fólkinu fjötra fátæktarinnar. Þeir sem hér eiga í hlut eru henni gleymdir og eiga að vera gleymdir áfram.
En ríkisstjórnin gleymir ekki vinum sínum. Fjársterk fyrirtæki eiga að fá lækkun á veiðigjaldi fyrir aðgang að verðmætri auðlind án þess að séð verði að almenn afkoma í greininni gefi tilefni til slíks. Einhverjir vildarvinir eiga að fá að véla um eigur almennings í einhverjum þjóðarsjóði sem ógerningur er að sjá hvað eigi að gera eða hvert hlutverk hafi umfram það sem ríkissjóður hefur. Bankarnir eiga að fá bankaskattinn lækkaðan duglega og lánastofnanir fá áfram að halda í verðtrygginguna sína sem þeim er svo innilega kær eins og skiljanlegt er.
Fjármálaráðherra hefur upplýst í svari við fyrirspurn frá þeim sem hér stendur að á liðnum fimm árum hafi verðbætur vegna íbúðalána numið 15 milljörðum vegna almennra verðhækkana en verðbætur vegna húsnæðisliðar vísitölunnar hafi numið 118 milljörðum kr. Húsnæðisliðurinn hefur birst eins og heimtufrekt skrímsli sem sogað hefur milljarða á milljarða ofan, ár eftir ár, frá heimilum og atvinnufyrirtækjum landsmanna. En ríkisstjórnin lætur eins og ekkert sé og aðhefst ekkert enda má ekki rjúfa kyrrstöðuna og værðina. Látið er eins og fjármálastöðugleika væri hætta búin ef látið væri af þeirri iðju að bera fjölskyldur, foreldra og börn, út af heimilum sínum.
Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá þeim sem hér stendur kemur fram að frá hruni hafi á tíunda þúsund fjölskyldur verið reknar af heimilum sínum. Við erum að tala um 30.000 manns, hæstv. forseti. Þetta er tíundi hluti landsmanna. Engu líkara er en að hér hafi geisað náttúruhamfarir eða styrjöld, slíkt er tjónið fyrir heimilin. Styrjöld, já, það er engu líkara en að rekinn sé hernaður á hendur heimilunum þar sem engu er eirt. Þetta þekkja feður, mæður og börn. Ríkisstjórnin yppir öxlum og hefur engar varnir uppi fyrir heimilin eins og það sé náttúrulögmál að hér á landi búi fólk við lánakjör sem talin yrðu óboðlegir afarkostir í nágrannalöndum okkar. Ekkert land í okkar heimshluta býður upp á viðlíka lánakjör á íbúðalánum og hér er gert. Vextir á slíkum lánum í nágrannalöndunum eru yfirleitt um 2% um þessar mundir.
Herra forseti. Það verður verk að vinna hér á Alþingi í vetur að rjúfa kyrrstöðuna og værðina. Menn munu sjá frumvörp frá okkur í því efni og annan málatilbúnað með það fyrir augum að þeir sem eru gleymdir þegar ríkisstjórnin á í hlut verði það ekki lengur. — Góðar stundir.“ Sagði Ólafur Ísleifsson