Kæru landsmenn. „Framfarir er fallegt orð. En hreyfiafl þeirra er breytingar og breytingar eiga sér andstæðinga.“ Þetta sagði Robert Kennedy, þá dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, árið 1964 og þess orð eiga svo sannarlega enn við í dag. Þessi ríkisstjórn er andstæðingur breytinga. Til þessa stjórnarsamstarfs er raunar stofnað til að sporna gegn nauðsynlegum kerfisbreytingum í íslensku samfélagi. Þetta er kyrrstöðustjórn. Hún hefur engin áform uppi um aðgerðir til að tryggja sambærilegt vaxtastig við nágrannalönd okkar, tryggja þjóðinni stöðugan gjaldmiðil eða stuðla að lægra matvælaverði. Enginn vilji er heldur til að stuðla að aukinni sátt um hlutdeild þjóðarinnar í arðsemi af nýtingu sameiginlegra auðlinda okkar.
Þetta eru ekki hugðarefni þessarar ríkisstjórnar. Límið í þessu stjórnarsamstarfi er fordæmalaus útgjaldaþensla, í hápunkti góðæris. Hæstv. forsætisráðherra segir ríkisstjórn sína raunar auka útgjöld, með leyfi forseta, „meira en nokkur stjórnmálaflokkur boðaði fyrir kosningar“. Maður spyr sig hvort samstaða þessara flokka hafi náðst einungis með því að leggja saman þau útgjaldaloforð sem þau lögðu til fyrir síðustu kosningar, engar málamiðlanir, engin forgangsröðun, bara ein allsherjarútgjaldaveisla. Þessi ríkisstjórn er eyðslustjórn.
Það er áhugavert að skoða orð hæstv. forsætisráðherra í ljósi niðurstaðna rannsóknarnefndar Alþingis á sínum tíma, en þar segir m.a., með leyfi forseta:
„Því miður virðist óhjákvæmilegt að álykta að stefnan í ríkisfjármálum hafi í reynd kynt undir ójafnvæginu.
Stjórnvöld ákváðu að lækka skatta á þenslutíma. Það var gert í trássi við ráðleggingar sérfræðinga og jafnvel gegn betri vitund þeirra ráðamanna sem tóku ákvörðunina. Þessi ákvörðun var afar gagnrýniverð.“
Þessi viðvörunarorð ættu að vera okkur umhugsunarefni nú. Þó að margt hafi gengið okkur í haginn og mun betra jafnvægi sé í hagkerfinu nú en fyrir hrun eru mörg kunnugleg viðvörunarljós byrjuð að blikka á ný.
Ríkisstjórnir hér á landi hafa sjaldnast rekið efnahagsstefnu. Þær hafa ekki gætt að áhrifum ríkisfjármála á þenslu, verðbólgu eða vexti. Nær væri að tala um eyðslustefnu í þeim efnum, að eyða þeim krónum sem koma í kassann. Þessi mistök skulu nú endurtekin og það sem verra er, ríkisstjórnin virðist beinlínis hreykin af því ef marka má orð hæstv. forsætisráðherra hér fyrr í kvöld.
Þrátt fyrir að hér sé frábært að búa verður því ekki neitað að Ísland er einfaldlega of dýrt land. Fjögurra manna fjölskylda greiðir t.d. um 150.000 kr. meira á mánuði í mat og vexti en sambærileg fjölskylda á hinum Norðurlöndunum. Tækist okkur að laga þetta samsvaraði það nærri 300.000 kr. launahækkun fyrir þessa fjölskyldu á mánuði. Það yrði launahækkun sem skilaði sér. Þessi ríkisstjórn vill óbreytt ástand í þessum efnum en stærir sig þess í stað af um 500 kr. viðbótarhækkun á persónuafslætti á mánuði fyrir launafólkið í landinu. Fyrirgefið mér, en þetta er eitt oststykki á þriggja mánaða fresti.
Skortur á efnahagsstefnu stjórnvalda auk óstöðugrar myntar er meginástæða hárra vaxta. Eyðslustefna þessarar stjórnar mun áfram tryggja okkur háa vexti og verðbólgu. Við í Viðreisn teljum þetta eitt af brýnustu hagsmunamálum þjóðarinnar og við munum leggja fram lausnir í þessum efnum á þessu þingi.
Kæru landsmenn. Hræðsla stjórnarinnar við aukna samkeppni í matvælaframleiðslu er ein meginorsök hás matvælaverðs hér á landi. Við beitum í senn mun hærri innflutningstollum á landbúnaðarafurðir en nágrannar okkar og undanskiljum um leið greinina samkeppnislögum. Hagsmunir neytenda eru þar fyrir borð bornir. Hér, eins og svo gjarnan þegar þessir flokkar eiga í hlut, víkja almannahagsmunir fyrir sérhagsmunum. Það er vel hægt að styðja við íslenskan landbúnað en um leið tryggja að sá stuðningur nýtist einnig neytendum. Það þarf nýja hugsun í landbúnaðarmál. Það þarf hugrekki til að breyta, það er erfitt að standa uppi gegn sérhagsmunaöflum til að berjast fyrir bættum kjörum almennings en það höfum við í Viðreisn einsett okkur að gera.
Það er á okkar ábyrgð sem sitjum hér á Alþingi að ráðast í þær breytingar sem þarf svo það verði ódýrara fyrir okkur öll að búa á Íslandi. En þar hefur þessi ríkisstjórn sýnt svo ekki verður um villst að hún er ekki starfi sínu vaxin. Hún skellir skollaeyrum við dýrkeyptum lærdómi undangenginna ára og raunar áratuga. Eyðslustefna hennar er ábyrgðarlaus og fyrir það ábyrgðarleysi greiðir almenningur. Við gerum öll mistök, herra forseti, það er aðeins mannlegt. En að endurtaka sömu mistökin aftur og aftur — það er einfaldlega heimskulegt.“ Sagði Þorsteinn Víglundsson