Refsileysi gagnvart þjófnaði af launum verkafólks er svartur blettur á íslenskum vinnumarkaði. Árlega eru þúsundir verkafólks á Íslandi hlunnfarin um laun, sem þau ýmist sjá aldrei eða þurfa að fá aðstoð stéttarfélaga við að innheimta. Kröfur Eflingar gagnvart atvinnurekendum fyrir hönd félagsmanna sinna námu ríflega milljarði á síðustu fimm árum. Meðalupphæð launakrafna sem Efling sendi atvinnurekendum fyrir hönd Eflingarfélaga árið 2019 var hátt í hálf milljón. Slíkar kröfur skipta hundruðum ár hvert.
Vinna fór af stað á vegum Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra þar sem fulltrúar Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands áttu að gera tillögur um lagabreytingar. ASÍ hefur þar lagt fram vel útfærðar og sanngjarnar lausnir. Samtök atvinnulífsins hafa hins vegar lagst gegn öllum tillögum og stöðvað framgang málsins. Með því er ráðist gegn einni af mikilvægustu forsendum gildandi kjarasamnings.
Vissir þú að:
- Í íslenskum lögum eru engar lagaheimildir fyrir sektum eða viðurlögum vegna brota gegn lágmarkskjörum launafólks, hvorki vegna vangoldinna launa né annarra réttindabrota.
- Þegar upp kemst um launaþjófnað gagnvart félagsmanni í Eflingu fær hann aðstoð á Kjaramálasviði Eflingar við gerð launakröfu. Hún innheimtist í sumum tilfellum en engin sekt eða bótaupphæð leggst ofan á hina stolnu upphæð, að frátöldum mögulega dráttarvöxtum sem eru mjög lágir og skilyrtir af lögum um vexti og verðtryggingu.
- Oft tekur marga mánuði og jafnvel ár að fá kröfuna innheimta. Í millitíðinni ber launamaðurinn kostnað, annan skaða og óþægindi af launaþjófnaðinum.
- Atvinnurekandi leiðréttir ekki endilega laun annarra í sömu stöðu þó að hann fallist á kröfu Eflingar fyrir hönd eins starfsmanns innan sinna raða.
- Mörg dæmi eru um atvinnurekendur sem hlunnfara fjölmenna hópa starfsfólks ítrekað um launagreiðslur, til dæmis orlofsgreiðslur og desemberuppbætur. Þessir atvinnurekendur virðast ganga út frá refsilausum launaþjófnaði bæði í sínum viðskiptaáætlunum og viðmiðum um viðskiptasiðferði.
- Heildarupphæð stolinna launa sem og fjöldi einstakra launakrafna hefur vaxið ár frá ári. Samtals er um ræða yfir milljarð króna á síðustu fimm árum. Á sama tímabili hefur fjöldi krafna verið á bilinu 200-700 en árið 2019 var metár með 700 kröfum og 345 milljónum í heildarupphæð. Meðalupphæð launakröfu er á bilinu 380 til 490 þúsund eða sem nemur algengum mánaðarlaunum Eflingarfélaga.
- Tölur Eflingar eru aðeins toppurinn á ísjakanum. Gögn Eflingar ná einungis til þeirra sem leita til félagsins og fanga því ekki ótilkynntan launaþjófnað. Margir félagsmenn leita ekki réttar síns af ótta við afleiðingar og sterkar vísbendingar eru um að margir atvinnurekendur brjóti á mun fleirum en þeim sem tilkynna um brot.
- Ungt fólk og fólk af erlendum uppruna er af ýmsum ástæðum í viðkvæmari stöðu á vinnumarkaði en þeir sem eldri eru og íslenskir. Þessir hópar geta búið að takmarkaðri reynslu, átt við tungumálaörðuleika, stoppa oft stutt við á vinnustöðum, eru ekki upplýst um réttindi sín og vita jafnvel ekki að hægt er að sækja aðstoð til stéttarfélagsins. Launaþjófnaður kemur harðast niður á þessum hópum þó að hann tíðkist í öllum greinum gagnvart fjölbreyttum hópi launafólks.
Algeng kjarasamningsbrot
- Fá ekki umsamið neysluhlé (kaffihlé, matarhlé)
- Fá ekki greidd laun í veikindum
- Hafa ekki fengið kjarasamningsbundna orlofs- eða desemberuppbót
- Eru látin vinna ólaunaða prufuvinnu
- Fá ekki sumarfrí
- Fá ekki lögbundinn vikulegan frídag
- Er greitt jafnaðarkaup undir taxta
Þetta er gott að vita
- Ef þú ert ekki með ráðningarsamning um vaktavinnu og ef þú hefur ekki samþykkt vaktavinnu áttu að fá greidda yfirvinnu, ekki álag, utan dagvinnutíma.
- Þú átt rétt á að vinna alla vaktina þína. Ef þér er sagt að fara heim snemma áttu samt að fá alla vaktina borgaða.
- Starfshlutfall þitt ætti að vera ein ákveðin tala, ekki bil á borð við 80-100%.
- Almennt áttu rétt á kaffi- og matarhléi. Ef þú færð ekki hléin þín áttu rétt á að fá þau greidd. Á milli vakta eiga að líða minnst ellefu klukkutímar. Ef þessi hvíld fæst ekki, er það bætt upp með launuðu leyfi. Minnst 10,17% eiga að vera greidd ofan á launin þín sem orlof.
- Þú átt að fá orlofsuppbót í júní og desemberuppbót í desember ef þú vinnur þá og hefur unnið einhvern hluta af árinu.
- Allt starfsfólk hefur rétt til launaðra veikindadaga. Það er á ábyrgð yfirmanns að finna afleysingu fyrir veikan starfsmann.
- Uppsögn á að vera skrifleg. Ef atvinnurekandinn vill að þú víkir strax frá störfum áttu rétt á að fá uppsagnarfrestinn borgaðann.
Efling krefst þess að stjórnvöld sporni við lögbrotum á kostnað verkafólks með því draga atvinnurekendur, sem eru gerendur í brotastarfsemi, til ábyrgðar og standi við sín loforð þar að lútandi án undanbragða. Málið er einfalt.
Skýrsla hagdeildar ASÍ frá ágúst 2019 um brotastarfsemi á vinnumarkaði
Félagsmáladeild ASÍ – Hvað mætir útlendingum á íslenskum vinnumarkaði?
Rannsóknamiðstöð ferðamála – Aðstæður erlends starfsfólks í ferðaþjónustu.