Bernhard Esau, sjávarútvegsráðherra Namibíu, og Sacky Shanghala, dómsmálaráðherra landsins, sögðu í dag af sér embætti. Þetta gera þeir í kjölfar uppljóstrana um að þeir og aðilar þeim tengdir hafi þegið greiðslur frá dótturfélögum Samherja til að greiða fyrir því að félögin fengju eftirsóttan kvóta. Rúv fjallar um málið á vef sínum. Þar segir jafnframt:
,,Namibískir fjölmiðlar greina frá afsögn ráðherranna. The Namibian hefur eftir heimildum að Hage Geingob, forseti Namibíu, hafi sagt sínum nánustu aðstoðarmönnum í morgun að Esau og Shanghala yrðu að bregðast rétt við og segja af sér. Fyrr í morgun sagði götublaðið Namibian Sun að Geingob hefði ákveðið að reka ráðherrana.
Samkvæmt gögnum sem lekið var til Wikileaks þáðu sjávarútvegsráðherrann og dómsmálaráðherrann háar fjárhæðir frá félögum í eigu Samherja. Kveikur og Stundin hafa rannsakað gögnin í samstarfi við Al Jazeera Investigates. Samkvæmt því var þetta leið Samherja til að komast yfir eftirsóttan kvóta. Ráðherrarnir voru meðal þeirra sem kallaðir eru hákarlarnir, háttsettir menn í namibíska kerfinu sem gátu beitt áhrifum sínum í þágu Samherja og fyrirtækja þess.“
https://gamli.frettatiminn.is/2019/11/12/ef-thu-hefur-taekifaeri-til-ad-borga-muta-sjavarutvegsradherra-tha-skaltu-borga-honum-strax/
Umræða