Íslenski hesturinn hefur lifað í íslenskri náttúru um aldir og er sérlega vel í stakk búinn til að ganga úti allan ársins hring. Helstu kostir útigangs felast í frelsinu þar sem náttúrulegt atferli hrossa fær notið sín. Líkamlegum þörfum þeirra er einnig betur mætt á útigangi og ber þar fyrst að nefna hreyfinguna sem er öllum hrossum mikilvæg, einkum ungviðinu sem er að vaxa og byggja upp stoðkerfið. Næringarnám hrossa verður gjarnan fjölbreyttara og heilbrigðara og hrossin eiga auðveldara með hitastjórnun enda búin þykkum vetrarfeldi. Því er æskilegt að hross sem ekki eru notuð til reiðar séu haldin á útigangi og á það ekki síður við um folöld en önnur hross. Ekki er æskilegt að halda fylfullar hryssur á húsi né láta þær kasta í aðþrengdu umhverfi hesthúsa.
Hross eru allt sumarið að undirbúa sig fyrir komandi vetur þó haustið sé mikilvægasti tíminn í því tilliti. Að hausti þurfa öll hross, sem ætlað er að ganga úti frameftir vetri eða vetrarlangt, að hafa aðgang að góðri beit og mikilvægt að þau nái að safna nokkrum fituforða. Fitulag undir húð er einangrandi og eins þurfa hross á fitu að halda til brennslu á meðan stórviðri ganga yfir.
Helstu mælikvarðar á velferð hrossa eru holdafar og heilbrigði en auk þess er litið til atferlis og upplits hrossanna. Samræmt mat á holdafari er byggt á holdastigunarkvarða sem þróaður hefur verið fyrir íslenska hestinn og góð reynsla er komin á.
Fóður skal að magni, gæðum og næringarinnihaldi fullnægja þörfum hrossa til vaxtar og viðhalds. Þetta getur kallað á flokkun hjarðarinnar eftir fóðurþörfum, sem ráðast einkum af framleiðslu (vexti, mjólkurframleiðslu, fósturþroska) og holdafari. Mjólkandi hryssur og unghross í vexti eru í mestri þörf fyrir fóður meðan fullorðin geldhross í góðum holdum þrífast vel af litlu. Engin krafa er um að síðastnefndi hópurinn standi í heyi enda getur það fljótt leitt til offóðrunar. Mikilvægt er að útigangshross hafi aðgang að beit samhliða gjöf, ef snjóalög leyfa, svo þau séu ekki með öllu háð fóðurgjöfinni.
Umráðamenn hrossa þurfa að fylgjast vel með veðurspám og gefa hrossum með eins til tveggja sólarhringa fyrirvara fyrir óveður, þar sem beit er ekki næg. Hafa þarf í huga að snöggar fóðurbreytingar, sér í lagi úr grófu fóðri í sterkara, auka hættu á meltingartruflunum sem geta endað með hrossasótt. Því getur verið varhugavert að gefa fyrstu heygjöf vetrarins rétt fyrir mikið óveður þar sem ekki er auðvelt að fylgjast með heilbrigði hrossanna eða koma þeim til hjálpar. Þá getur verið tryggara að þau standi af sér veðrið og fái góða gjöf þegar slotar, enda hafi þau verið á beit og ekki svöng þegar veðrið skall á.
Það getur orkað tvímælis að flytja hross úr hólfum þar sem þau þekkja sig vel í meira skjól og aðþrengdar aðstæður stuttu fyrir óveður enda hætta á að það valdi stressi og taki frá hrossunum möguleikann á að undirbúa sig sjálf. Sama getur átt við um ýmsar aðrar skyndi aðgerðir, t.d. að reka heilu stóðin inn í skemmur eða annað húsnæði sem ekki uppfyllir þarfir um rými og loftræstingu. Stundum geta þó framangreindar aðgerðir átt við og það verða bændur og aðrir umráðamenn hrossa að meta miðað við aðstæður á hverjum stað.
Hross geta uppfyllt þarfir sína fyrir vatn með því að éta snjó en oft og tíðum tekur fyrir aðgang að vatni í fannfergi. Mjólkandi hryssur eru í mestri vökvaþörf en aðrir viðkvæmir hópar eru ungviði í vexti og hross sem fyrir aldurs sakir eru farin að ganga á vöðva og/eða með undirliggjandi efnaskiptasjúkdóma. Í frostatíð verður snjórinn óaðgengilegur og við þær aðstæður getur þurft að vatna hrossum eða brjóta upp snjó fyrir þau. Mikilvægt er að auka ekki frekar á vatnsþörfina með saltgjöf, bætiefnum steyptum í melassa eða próteinríku fóðri á meðan vatn er af skornum skammti. Hægt er að gefa slíkt í annan tíma.
Hross eru einna viðkvæmust fyrir blautviðri, sérstaklega kalsarigningum að hausti og vori þegar þau eru ekki í fullum vetrarfeldi. Þá skiptir miklu að hrossin séu á skjólgóðu landi eða hafi aðgang að manngerðum skjólveggjum. Það á þó ekki endilega við í verstu vetrarveðrum þegar snjór safnast í skjólsæla staði með miklu kófi þar í kring. Þar vilja hross alls ekki standa og getur raunar verið hætta búin í aftakaveðrum. Þá reynist betur að hross hafi aðstæður til að hópa sig saman á berangri þar sem blæs undan þeim. Taglið ver afturendann sem þau snúa undantekningalaust upp í veðrið á meðan höfuðið er lágreist í skjóli búksins. Folöldin eru vel varin í skjóli mæðra sinna, gjarnan mitt inni í hópnum og þar kemur annað ungviði sér einnig fyrir. Hætt er við að einstaklingar sem eiga undir högg að sækja í hópnum, t.d. gömul hross, lendi á jaðrinum. Þurfa umráðamenn að vera vakandi fyrir því en alla jafna skiptast hrossin á við að standa áveðurs. Fleira sem snýr að atferli hrossa mætti nefna; þau forðast greinilega allar aðþrengdar aðstæður, sviptivinda sem einkum myndast í kringum mannvirki og hvers kyns hávaða. Að öðru leyti stjórnar aðgengi að fóðri miklu um hvar þau halda sig. Því er mikilvægt að velja heppilega gjafastaði út frá veðurhorfum, taka mið af landslagi og halda hrossum þar sem slysahætta er sem minnst.
Við eftirlit og mat á aðbúnaði hrossa á útigangi skal litið heildstætt á þá þætti sem hafa áhrif á velferð hjarðarinnar, svo sem fóðurástand, hárafar og annað heilbrigði, landgæði, skjól og veðurfar á svæðinu. Þar sem hross eru grönn (undir reiðhestholdum) skal gerð ríkari krafa um gæði hrossaskjóla, samhliða bættri fóðrun. Að sama skapi er krafan vægari ef hrossin eru í mjög góðu standi. Þar sem ungviði (folöld og/eða trippi) er haldið í sér hópum er meiri þörf á skjóli og æskilegt að hægt sé að hýsa slíka hópa í vondu veðri.
Leiðbeiningar um útigang hrossa og undirbúning fyrir stórviðri vetrarins:
- Flokka hross eftir fóðurþörfum tímanlega að hausti og tryggja öllum hópum hentuga beit og/eða fóðrun. Mikilvægt að útgangshross séu í ríflegum reiðhestholdum (3,5) að hausti og vetrarfóðrun skal taka mið af holdafari.
- Halda útigangshross á rúmgóðu beitilandi með breytilegu landslagi og/eða manngerðu skjóli.
- Ormahreinsa viðkvæma hópa eða alla hjörðina eftir aðstæðum og í samráði við dýralækni.
- Draga úr slysahættum.
- Auka eftirlit með útigangshrossum í aðdraganda óveðurs og á eftir.
- Huga sérstaklega að einstaklingum sem standa höllum fæti í aðdraganda óveðurs. Þetta á sérstaklega við um eldri hross sem farin eru að ganga á vöðva og/eða hafa þróað með sér efnaskiptasjúkdóma.
- Gefa hrossum, sem þá þegar eru komin á gjöf, með góðum fyrirvara fyrir yfirvofandi stórviðri. Gefa á opnu svæði. Meta þörfina/áhættuna fyrir aðra hópa eftir aðstæðum.
- Vitja hrossa strax og færi gefst eftir óveður, fóðra og vatna eftir þörfum.
- Leita til dýralækna vegna veikra hrossa og laskaðra.
- Grein MAST um velferð hrossa á útigangi í Eiðfaxa