ÁKVÆÐI NORSKRA LAGA UM GREIÐSLUR Í FORELDRAORLOFI FALLA EKKI UNDIR TILSKIPUN UM JÖFN TÆKIFÆRI KARLA OG KVENNA AÐ ÞVÍ ER
VARÐAR ATVINNU OG STÖRF
EFTA-dómstóllinn hafnaði í dag kröfu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um viðurkenningu á því að norska ríkið hefði brotið gegn ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/54/EB um framkvæmd meginreglunnar um jöfn tækifæri karla og kvenna að því er varðar atvinnu og störf.
Málið varðar greiðslur á grundvelli norskra laga um almannatryggingar, sem greiddar eru til foreldra á meðan á töku foreldraorlofs stendur, eftir fæðingu eða ættleiðingu barns. Fyrirkomulagið er með þeim hætti að réttur föðurs til greiðslna, á því tímabili sem foreldrar geta deilt töku foreldraorlofs, er háður aðstæðum móður en réttur móður er á hinn bóginn ekki háður aðstæðum föður.
Dómstóllinn tók fram að óumdeilt væri í málinu að skilyrði þess að foreldri hefji töku foreldraorlofs, samkvæmt ákvæðum norskra laga um vinnuvernd, féllu undir c-lið 1. mgr. 14. gr. tilskipunarinnar um ráðningar- og starfskjör. Málið snéri hins vegar að því hvort skilyrði þess að fá greiðslur úr almannatryggingum í foreldraorlofi fælu einnig í sér slík ráðningar- og starfskjör.
Dómstóllinn taldi að greiðslurnar, og það fyrirkomulag sem almannatryggingalögin mæltu fyrir um, teldust ekki til ráðningar- og starfskjara í skilningi c-liðar 1. mgr. 14. gr. tilskipunarinnar. Þrátt fyrir að greiðslurnar hefðu áhrif á möguleika launþega til þess að nýta rétt sinn til töku foreldraorlofs, væri tilgangur þeirra sá að tryggja tekjur foreldra, sem í sjálfu sér væri óháð sambandi vinnuveitanda og launþega. Í því samhengi tók Dómstóllinn fram, að samkvæmt 6. mgr. 14. gr. norskra laga um almannatryggingar geta margvíslegir þættir, ótengdir sambandi vinnuveitanda og launþega, skapað rétt til umræddra greiðslna, og að við útreikning á fjárhæð greiðslnanna væri litið til annarra þátta en launatekna, s.s. tekna þeirra sem starfa sjálfstætt, greiðslna úr almannatryggingakerfi eða þóknunar vegna herþjónustu.
Dómstóllinn hafnaði því að greiðslurnar væru svo nátengdar rétti til töku foreldraorlofs að þær teldust til ráðningar- og starfskjara í skilningi tilskipunarinnar. Tekið var fram að þrátt fyrir að EES-ríkjunum sé skylt að tryggja rétt beggja foreldra til töku foreldraorlofs á jafnræðisgrundvelli – að teknu tilliti til réttinda móður í kjölfar fæðingar – væri ríkjunum í sjálfsvald sett hvort veittur væri frekari réttur til greiðslna úr almannatryggingakerfum sínum.
Loks taldi Dómstóllinn að greiðslur úr almannatryggingakerfi viðkomandi ríkis félli ekki undir hugtakið „laun“ í skilningi tilskipunarinnar. Slíkar greiðslur fælu í sér réttindi þess sem nýtur greiðslnanna sem eru ákvörðuð á grundvelli annarra þátta en sambands vinnuveitanda og launþega.
Af sömu ástæðu taldi Dómstóllinn að slíkar greiðslur féllu ekki undir hugtakið „ráðningar- og starfskjör“ á þeim grundvelli einum að skilyrði þeirra vísuðu til atvinnuþáttöku. Var það niðurstaða Dómstólsins að umræddar greiðslur teldust ekki til ráðningar- og starfskjara í skilningi tilskipunarinnar og féllu þar með utan gildissviðs hennar. Var kröfum ESA því hafnað.
Dóminn í heild sinni má finna á vefsíðu EFTA-dómstólsins: www.eftacourt.int