Matvælastofnun barst nafnlaus ábending föstudaginn 9. janúar 2026 um dauð og hálfdauð bleikjuseiði í Tálknafjarðarhöfn
Við eftirgrennslan Matvælastofnunar kom í ljós að atburður hafði átt sér stað hjá Tungusilungi 30. desember 2025 sem varð þess valdandi að það flæddi yfir í keri, sem staðsett er niður í fjöru skammt frá Tálknafjarðarhöfn, með þeim afleiðingum að eldisfiskur komst út í sjó.
Samkvæmt upplýsingum frá rekstrarleyfishafa voru um 27.000 fiskar í þessu keri og að hans mati hafi nokkrir tugir farið úr kerinu, en ekki verður hægt að fullyrða um fjölda fyrr en búið er að tæma kerið sem verður gert á næstu vikum. Rekstraraðili telur að flestir ef ekki allir fiskarnir sem farið hafi úr kerinu hafi verið dauðir eða laskaðir.
Meðalþyngd fiska í þessu keri er um 35 gr. Rekstrarleyfishafi virkjaði ekki viðbragðsáætlun vegna stroks. Matvælastofnun vinnur að rannsókn málsins og mun gefa út skýrslu þegar rannsókn er lokið.

