Fyrirhuguð sala ríkisins á hlut í Íslandsbanka er fullkomlega siðlaus
Rætt var um áform ríkisstjórnarinnar að hefja sölu á Íslandsbanka á árinu í Silfri Sjónvarpsins. Þetta ræddu þær Ásdís Kirstjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Guðrún Johnsen, hagfræðingur Viðskiptaháskólans í Kaupmannahöfn og efnahagsráðgjafi VR.
Ásdís galt þess að sjálfsögðu hve málstaður hennar var slæmur. En Guðrún hafði afgernadi yfirburði í rökræðum þeirra ekki aðeins vegna þess, heldur vegna hins hve röksemdir hennar voru meitlaðar og sannfærandi.
En þetta var mitt mat. Svo eru það allir hinir og þá sérstaklega fjárfestar sem vilja græða á sölu Íslandsbanka. Þeir hafa eflaust sjaldan heyrt talað jafn vel fyrir sína hönd og aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins gerði í dag. Þetta var allt þarna: Losa þurfi um bundið fjármagn sem “kemst ekki í vinnu.” Það er að segja, peningarnir fari að gefa af sér og nýtast í gróðabraski.
Við erum komin ansi langt frá hinu gamalkveðna “græddur er geymdur eyrir.” Nú þarf allt að vera á fullu í þenslu og gróða og braski. Blásið á allt sem heitir varfærni og hófsemi, að ekki sé nú minnst á það að geymt fjármagn verði nýtt til uppbyggingar samfélagsins en ekki látið renna niður í vasa fjárplógsmanna.
Guðrún Johnsen færði rök fyrir því að varasamt væri að selja banka á meðan drjúgur hluti lána væri í frosti – 100 til 180 milljarðar. Svo stórt lánasafn í frystingu laði að sér áhættusækna fjárfesta. „Ef þingið samþykkir þetta, þá er verið að laða að fjárfesta sem eru áhættusæknir. Og þeir hafa áhuga á einhverju öðru heldur en reglulegri bankastarfsemi.”
Hér er vísað til framferðis vogunarsjóða sem við þekkjum svo vel úr síðasta hruni, þeirra sem jafnan vilja komast yfir lánasöfn til þess að geta haft gott af þeim.
Við munum hvernig í hruninu fyrir áratug, illu heilli, var gengið að þúsundum heimila með óbilgjörnum innheimtum. Í öðrum tilvikum var leikurinn til þess gerður að komast yfir eignir hins skuldsetta og það er greinilega það sem Guðrún Johnsen er að vara við. Það gerði hún á frábærlega skýran hátt. Sú hætta er fyrir hendi að vogunargammarnir ætli sér að ná í eignir þeirra skuldunauta sem geta ekki varið sig og þá ekki síst í ferðaþjónustunni.
Eftir að hlusta á máflutninginn í Silfrinu á báða bóga verður eitt skýrt í mínum huga. Fyrirhuguð sala ríkisins á hlut í Íslandsbanka er fullkomlega siðlaus.
Í kvöldfréttum var Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, síðan mættur til að segja áhyggjur Guðrúnar Johnsen út í hött, það sé komið allt annað regluverk en fyrir hrun! Fráleitt að bera einkavæðingu banka nú við einkavæinguna þá!! Hvað skyldi hann eiga við? Þetta þarf hann og ríkisstjórnin að útskýra, ekki almennum orðum heldur nákvæmlega.
Er fjármálaráðherrann sammála talsmanni Samtaka atvinnulífsins að sala á bönkum sé til þess að skapa traust á þeim? Traust hverra?
Skrifar VG upp á þennan málflutning?
Reglurnar segja ekki allt, heldur hvernig eftir þeim er farið, hafði Guðrún Johnsen minnt á í sjónvarpsumræðunni.
Og við það vil ég bæta:
Mannskapurinn er sá sami. Svo og gróðahvatinn í kerfinu.
Brotaviljinn óbreyttur.
Gerið svo vel og hættið að bjóða okkur upp á svona rugl!