Laun æðstu embættis- og stjórnmálamanna munu koma til með að hækka auk þess sem þeir mega von á vænni eingreiðslu eftir dóm Hæstaréttar þar sem ákvörðun um skerðingu launa þeirra var dæmd ólögmæt.
Í dómsmálinu var deilt um ákvörðun um að breyta árlegu viðmiði Ástríðar Grímsdóttur héraðsdómara við árlega uppfærslu launa, í öðru lagi um að endurkrefja hana um hluta greiddra launa og þriðja lagi lækka laun hennar fyrir júní 2022. Ákvörðun Hæstaréttar féll Ástríði í hag og hefur hún víðtæk áhrif á laun æðstu embættismanna, stjórnmálamanna og forseta Íslands svo dæmi séu nefnd.
Forseti og ráðherrar hækka í launum
Í svari við fyrirspurn mbl.is til fjármálaráðuneytisins kemur fram að fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð liggi ekki fyrir fyrr en í næstu viku.
Hins vegar sendi ráðuneytið lista yfir þá sem dómurinn varðar. Sem dæmi þá munu laun forseta, forsætisráðherra og ráðherra hækka við þetta. Sem stendur er forseti með ríflega 3,7 milljónir í laun, forsætisráðherra 2,5 milljónir króna og ráðherrar með tæpar 2,3 milljónir króna.
Ýmsir embættismenn tengdir framkvæmdavaldinu munu hækka í launum. Svo sem ráðuneytisstjórar, Seðlabankastjóri, ríkissaksóknari og lögreglustjórar í umdæmum landsins. Spannar launabil þessara embættismanna frá því að vera ríflega 1,6 milljónir króna til tæplega 2,5 milljónir króna í mánaðalaun.
Þá munu dómarar ólíkra dómstiga, m.a. hæstaréttardómarar og forseti hæstaréttar hækka í launum. Þýðir það að dómur hæstaréttar hafði bein áhrif á laun dómara hæstaréttar t.a.m. Spannar mánaðalegt launabil þeirra frá tæplega 1,8 milljón kr króna til ríflega 2,5 milljóna króna.
Fá á milli 2-3 milljónir króna afturvirkt
Viljinn vakti fyrst athygli á málinu. Þar segir að að samkvæmt heimildum miðilsins nemi leiðrétting launa umtalsverðum fjármunum, auk þess sem laun hækka frá því sem miðað var við fyrir dóminn. Ráðherrar geti því átt von á greiðslu að upphæð vel á fjórðu milljón króna, fyrir skatt, og alþingismenn tæplega tvær milljónir. Þeir sem hafa svo álag á þingfararkaup, t.d. vegna formennsku í stjórnmálaflokki eða þingnefnd, fái svo á milli 2-3 milljónir króna.
Landsbankinn dæmdur – ,,Tugir milljarða sem talið er að bankarnir hafi oftekið“
Flokkur fólksins með þingsályktunar tillögu um að hætta við launahækkun ráðamanna