Til úthlutunar voru hátt í 25 milljónir króna í stað 10 milljóna eins og alltaf
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, veitti í dag styrki til 21 verkefnis úr þróunarsjóði innflytjendamála. Nam heildarfjárhæð styrkja alls 24 milljónum króna. Tilgangur sjóðsins er að efla rannsóknir og þróunarverkefni á sviði innflytjendamála með það að markmiði að auðvelda gagnkvæma aðlögun innflytjenda og íslensks samfélags. Framlög í sjóðinn voru stóraukin í ár en til úthlutunar voru hátt í 25 milljónir króna í stað 10 milljóna eins og verið hefur. Sérstök áhersla var jafnframt lögð á að styrkir yrðu veittir til verkefna í þágu barna og ungmenna í takt við áherslur ráðherra og einbeittan vilja til að setja málefni þeirra í forgang.
Innflytjendum hefur fjölgað mikið á Íslandi undanfarna tvo áratugi og hlutfall þeirra af heildarmannfjölda svipar nú til hinnar Norðurlandanna. Í lok árs 2018 töldust 9 prósent barna á Íslandi til innflytjenda eða annarrar kynslóðar innflytjenda. „Lengi býr að fyrstu gerð og er afar mikilvægt er að við hlúum vel að þessum hópi barna bæði námslega og félagslega. Samkvæmt nýrri úttekt Hagstofunnar þá útskrifast mun færri innflytjendur af framhaldsskólastigi sem er áhyggjuefni og mikilvægt að skoðað verði ofan í kjölinn hvað veldur og gerð bragarbót á,“ sagði Ásmundur Einar við úthlutunina.
Auk áherslu á verkefni í þágu barna og ungmenna var lögð áhersla á rannsóknar- og þróunarverkefni sem tengjast virkri þátttöku innflytjenda og sýnileika þeirra sem og verkefni sem falla vel að þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2016-2019. Nýmæli í áherslum sjóðsins var á verkefni sem tengjast vinnumarkaðsmálum innflytjenda og skilaði það sér í fjölgun umsókna tengdum þeim.
Alls bárust ráðuneytinu 53 umsóknir og var heildarupphæð styrkumsókna 93 milljónir króna. Sérstök matsnefnd var skipuð af fulltrúum innflytjendaráðs sem í sátu formaður innflytjendaráðs, starfsmaður innflytjendaráðs sem jafnframt er sérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu, fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins, fulltrúi dómsmálaráðuneytisins, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, fulltrúi Reykjavíkurborgar og forstöðumaður Fjölmenningarseturs.
Af þeim styrkjum sem veittir voru laut rúmlega helmingur að málefnum barna og fjölskyldna þeirra. Enn fremur fengu umsóknir sem lutu að vinnumarkaðsmálum, virkri þátttöku innflytjenda í samfélaginu og menntamálum styrki.
Samtök kvenna af erlendum uppruna Þróunarverkefni Tryggjum jöfn tækifæri með samstarfi 900.000
Samtök um kvennaathvarf Rannsókn Erlendu börnin í kvennaathvarfinu – hvað segir mamma? 500.000
Kópavogsdeild Rauða krossins Þróunarverkefni Æfingin skapar meistarann 700.000
Grunnskólinn á Suðureyri Þróunarverkefni Verðum betri saman 280.000
Símenntunarstöðin á Vesturlandi Þróunarverkefni Einstaklingsmiðuð fjarkennsla í íslensku í dreifðum byggðum 1.700.000
Ritver Menntavísindasviðs Háskóla Íslands Þróunarverkefni Stuðningur við verkefnavinnu stúdenta af erlendum uppruna 400.000
Alþýðusamband Íslands Rannsókn Umfang og eðli launaþjófnaðar hjá erlendu vinnuafli 900.000
Helga Rut Guðmundsdóttir Rannsókn Máltaka 3ja ára barna með íslensku sem annað mál og áhrif söngiðkunar á framvindu og færni 700.000
Hjálparstarf kirkjunnar Þróunarverkefni Töskur með tilgang 500.000
Samskiptamiðstöð heyrnalausra og heyrnaskertra Rannsókn Áhrif tvítyngis málhafa á þróun íslenska táknmálsins 850.000
Matsskrifstofa Háskóla Íslands- ENIC/NARIC á Íslandi Þróunarverkefni – Kortlagning á verkferlum á mati á fyrra námi innflytjenda 700.000
Reykjavíkurborg – þjónustumiðstöð Breiðholts Þróunarverkefni Tilsjón og Okkar mál (TOM) 2.500.000
Reykjanesbær Rannsókn – Viðhorf íbúa til innflytjenda og fjölmenningarsamfélagsins og tækifæri til félagslegrar þátttöku í Reykjanesbæ 800.000
Rauði krossinn á Íslandi Þróunarverkefni – Bætt líðan og gagnkvæm aðlögun flóttabarna og ungmenna – Orff tónlistasmiðjur 1.200.000
Íris H. Halldórsdóttir og Magnfríður Júlíusdóttir Rannsókn Verkalýðsfélög og erlent starfsfólk í ferðaþjónustu 750.000
Icelandic Online – Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum Þróunarverkefni Vefnámskeið í íslensku sem öðru máli fyrir snjalltæki ætlað börnum á aldrinum 5-7 ára 2.500.000
Reykjanesbær Þróunarverkefni Kjarnahópur til vellíðunnar og virkni 800.000
Úthlutun úr þróunarsjóði innflytjendamála fyrir árin 2018-2019
Skólaskrifstofa Hornafjarðar Þróunarverkefni Móðurmálskennsla grunnskólabarna á Hornafirði 2.000.000
Reykjavíkurborg – skóla- og frístundasvið Annað Myndorðabók – íslensk þýðing fyrir vefsíðu 500.000
Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins Rannsókn Fjölgun tilvísana á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins vegna barna af erlendum uppruna – í hverju felst hún og hvað veldur henni? 3.000.000
Reykjavíkurborg – þjónustumiðstöð Breiðholts Þróunarverkefni Alþjóðleg unglingasmiðja 1.800.000
Úthlutun úr þróunarsjóði innflytjendamála fyrir árin 2018 – 2019