Árni Tryggvason, einn ástsælasti leikari Íslands, er látinn 99 ára að aldri. Í tilkynningu frá fjölskyldu hans segir að hann hafi látist í gær, 13. apríl, á hjúkrunarheimilinu Eir. Sonur hans, leikarinn Örn Árnason, greinir frá andlátinu á samfélagsmiðlum.
„Tjaldið fallið í síðasta sinn“
„Þá er tjaldið fallið í síðasta sinn hjá pabba okkar Árna Tryggvasyni leikara. Hann kvaddi þennan heim í hádeginu þann 13. apríl uppi á Eir, sem var hans dvalarstaður og foreldra okkar hin síðustu ár.
Pabbi fæddist 19 janúar 1924 og náði því að verða 99 ára gamall. Mamma lést í júlí á síðasta ári, 94 ára og nú dansa þau loksins valsinn sinn saman. Kærar þakkir til Eirar fyrir umönnun foreldra okkar hin síðustu ár.
Pabbi var alla tíð mikil aðdáandi Samuels Becketts leikritaskálds og lék tvisvar í leikriti hans Beðið eftir Godot sem hann hafði miklar mætur á. Beckett fæddist 13. apríl og pabbi okkar dó 13. apríl. Godot kallar menn til sín þegar tíminn er kominn. Hann var 13. apríl fyrir pabba,“ skrifar Örn um föður sinn.
Árni fæddist 19. janúar 1924 í Syðri-Vík í Árskógsstrandarhreppi. Eiginkona hans, Kristín Nikulásdóttir, lést í júlí í fyrra. Hún var 94 ára.
Árni lauk námi frá Alþýðuskólanum að Laugum 1943. Hann lauk prófi í leiklist í Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar árið 1948.
Árni hlaut heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands fyrir frábært ævistarf í þágu leiklistar árið 2010. Fjölmargir þekkja hann úr Dýrunum í Hálsaskógi, en hann lék Lilla Klifurmús eftirminnilega í sýningunni í Þjóðleikhúsinu. Söng hans og leik er einnig að finna á ótal plötum í tengslum við leiklist.
Árni stundaði róðra og gerði út trillu frá Reykjavík og Hrísey. Þau hjónin dvöldu gjarnan í Hrísey á sumrin, þar sem Árni var trillukarl á hverju sumri árum saman.
Árni gaf út tvær plötur í eigin nafni, sú fyrri kom út 1971 og sú seinni, sem hafði að geyma tónlist úr söngleikjum, kom út 1992. Ævisaga hans, Lífróður Árna Tryggvasonar leikara, kom út 1991.