Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur skipað starfshóp sem ætlað er að skilgreina áherslur um verndun hafsvæða innan íslenskrar lögsögu til samræmis við markmið alþjóðasamninga.
Hópurinn mun rýna stjórnkerfi verndunar og nýtingar hafsins og er áhersla lögð á virka svæðisvernd í hafi. Svæði sem hafa mikið verndargildi, svæði með vistfræðilega sérstöðu og svæði sem eru í hættu á að vera raskað verða afmörkuð. Hópurinn mun einnig gera tillögur að svæðum sem þurfa verndunar við.
Verndun hafsvæða er mikilvæg til að viðhalda og efla líffræðilega fjölbreytni í hafi og á hafsbotni. Hnignun hafsvæða og loftslagsbreytingar hafa aukið álag á vistkerfi og er formleg verndun því liður í að viðhalda seiglu vistkerfa gegn slíkum umhverfisbreytingum.
Hópurinn á að horfa til þess markmiðs alþjóðlegra samninga að a.m.k. 30% heimshafanna verði innan verndarsvæða eða njóti annarrar virkrar svæðisbundinnar verndar og verði stefnt að verndun innan efnahagslögsögu Íslands verði í samræmi við fyrrgreind markmið. Lögð er áhersla á að markmið verndunar séu skýr, að árangur sé tryggður með vöktun og eftirliti, unnið verði á vísindalegum grunni og í samráði við haghafa.
Björn Helgi Barkarson skrifstofustjóri sjálfbærni í matvælaráðuneytinu er formaður hópsins.
Aðrir meðlimir eru:
- Agnar Bragi Bragason, sérfræðingur, matvælaráðuneytinu
- Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, sviðsstjóri, Hafrannsóknastofnun
- Hugi Ólafsson, skrifstofustjóri, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu
- Snorri Sigurðsson, sviðsstjóri, Náttúrufræðistofnun Íslands
- Þórdís Björt Sigþórsdóttir, teymisstjóri, Umhverfisstofnun
Starfsmaður stýrihópsins verður Freydís Vigfúsdóttir, sérfræðingur í matvælaráðuneytinu.
Gert er ráð fyrir að stýrihópurinn skili fyrstu tillögum til ráðherra fyrir 1. desember 2023.