Á ellefta tímanum í gærmorgun barst, í gegnum Neyðarlínuna, tilkynning um umferðarslys á veginum yfir Klettsháls í Reykhólasveit. Þar mun fólksbifreið hafa farið út af veginum og oltið eina eða fleiri veltur.
Ökumaður var einn í bifreiðinni og var fastur í bílflakinu

Vegfarendur sem fyrstir komu á vettvang hlúðu að viðkomandi í bifreiðinni. Á meðal þeirra voru hjúkrunarfræðingur og læknir, sem kom sér ákaflega vel.
Björgunarsveitir af svæðinu, sjúkrabifreið og tækjabíll frá Patreksfirði ásamt lögreglu fóru á vettvang. Kallað var eftir aðstoð þyrlu LHG sem blessunarlega var í æfingaflugi þegar útkallið barst og var því fljótari en ella á vettvang.
Þegar ökumaður hafði verið losaður úr bílflakinu og fékk viðeigandi aðhlynningu var honum flogið með þyrlunni á sjúkrahús í Reykjavík. Líðan hans mun vera, eftir atvikum, stöðug.
Lögreglan á Vestfjörðum vill þakka vegfarendum þeim sem komu á vettvang og hlúðu að hinum slasaða og viðbragðsaðilum fyrir vel unnið verk.
Rannsókn á tildrögum slyssins er í höndum lögreglunnar á Vestfjörðum og rannsóknarnefndar samgönguslysa.
Discussion about this post