Í ljósi breytinga á rammaáætlun í meðförum umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis vilja Samtök ferðaþjónustunnar koma á framfæri vonbrigðum sínum yfir þeim breytingum að færa vatnasvæði Héraðsvatna og þar með jökulsárnar í Skagafirði úr verndarflokki yfir í biðflokk. Jökulsárnar í Skagafirði eru gríðarlega mikilvægar fyrir ferðaþjónustu í Skagafirði og eru flúðasiglingar ein helsta undirstaða ferðaþjónustu á svæðinu.
Þá lýsa SAF yfir miklum vonbrigðum með afstöðu meirihluta nefndarinnar varðandi áhrif vindorkukostsins Búrfellslundar. Meirihlutinn virðist ekki byggja afstöðu sína um lítil áhrif á ferðaþjónustu á neinu sérstöku nema tilfinningu. Samtökin telja varhugavert að setja Búrfellslund í nýtingarflokk.
SAF skora á stjórnvöld að gera ferðaþjónustunni hærra undir höfði við hagsmunamat þegar ákveðið er hvenær og hvar eigi að virkja. Einnig vilja samtökin minna á að ferli áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða sé virkt og að sátt ríki um framtíðarfyrirkomulag orkuvinnslu hér á landi.
SAF fagna því að meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar hafi lagt til að Skrokkölduvirkjun verði tekin úr nýtingarflokki og sett í bið. Það hefði þó verið betra ef þessi virkjunarkostur hefði verið settur í verndarflokk enda við jaðar stærsta þjóðgarðs Evrópu. Einnig fagna samtökin þeirri breytingu að draga virkjunarkosti úr biðflokk og fella þá úr áætluninni.
SAF hvetja jafnframt umhverfisráðherra til að friðlýsa Torfajökulssvæðið, Grashaga og Sandfell enda liggja svæðin í nágrenni við vinsælustu og mest sóttu gönguleið landsins, Laugaveginn.
Samtök ferðaþjónustunnar
14. júní 2022