Í gærkvöldi, þriðjudagskvöld, barst björgunarsveitinni Stefáni beiðni um að fara til aðstoðar þrem ferðamönnun sem höfðu gengið á Hlíðarfjall í Mývatnssveit.
Fólkið hafði valið hefðbundna gönguleið á fjallið, en þegar þau voru komin nokkuð upp í fjallið, fóru þau út af leiðinni og stefndu undir klettabelti sem þau töldu færa leið. Þegar þau höfðu lesið sig upp undir klettabeltið með aðstoð spotta sem var með í för, áttuðu þau sig á að lengra yrði vart haldið. Tvær konur í hópnum treystu sér ekki til að halda áfram og var þá farið fram á aðstoð björgunarsveitar.
Hópur frá Stefáni hélt á fjallið og var fljótlega kominn til þeirra. Nokkurn tíma tók þó að tryggja niðurgöngu þeirra svo vel væri, en þarna er fjallið laust í sér og töluverð hætta af og á grjóthruni. Eins og sést á myndunum sem fylgja eftirlét björgunarfólk nokkuð af fatnaði sínum, enda konunum farið að kólna talsvert.
Þær voru svo aðstoðaðar niður, önnur í einu, í samfloti við björgunarmann. Ekki var þörf á að aðstoða þriðja aðilann, sem gat lagt hönd á póg við björgunaraðgerðir. Allir voru komnir niður heilir á húfi undir miðnætti.
Í gærkvöld barst einnig aðstoðarbeiðni frá fólki sem hafði fest bíl sinn í Þverá í Fljótshlíð. Björgunarfólk frá Hvolsvelli fór á vettvang, en vatn var farið að flæða inn í bílinn, og börn voru í honum. Vel gekk að koma bæði fólki og bíl á þurrt.
Meðfylgjandi eru mynd er frá Mývatni í gærkvöldi.