Viðbragðstími þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar styttist umtalsvert um helgina með því að kalla þyrlur stofnunarinnar bæði út frá Akureyri og Reykjavík. Undanfarnar tvær helgar hefur Landhelgisgæslan gert þyrlur stofnunarinnar út frá mismunandi stöðum á landinu. Um verslunarmannahelgina voru þyrlurnar gerðar út frá Akureyri og Vestmannaeyjum og um liðna helgi var þyrlusveitin kölluð út frá Reykjavík og Akureyri.
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar annaðist sjö útköll um helgina og var þrívegis kölluð út frá Akureyri vegna slysa. Bifhjólaslys urðu á föstudags og laugardagskvöldi á svipuðum slóðum á hálendinu. Annað varð austur af Herðubreið og hitt norður af Vatnajökli.
Viðbragðstími vegna þessara tveggja slysa styttist um klukkustund með því að kalla þyrluna út frá Akureyri. Þeir sem slösuðust voru báðir fluttir á Sjúkrahúsið á Akureyri. Á meðan þyrluáhöfnin sem stödd var á Akureyri annaðist útkall vegna bifhjólaslyssins á laugardagskvöld var hin þyrluvaktin sem stödd var í Reykjavík kölluð út í Flatey vegna slyss sem þar varð.
Aðfaranótt sunnudags varð alvarlegt umferðarslys á Ólafsfjarðarvegi og var þyrlan stödd á Dalvík þegar útkallið barst og gat áhöfn hennar brugðist við með skjótum hætti. Sá sem slasaðist var einnig fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri.
Útgerð þyrlanna frá Akureyri og Vestmannaeyjum undanfarnar tvær helgar gekk vonum framar og stytti viðbragðstíma. Líkur eru á að framhald verði á þessu tilraunaverkefni Landhelgisgæslunnar yfir fjölmennar ferðahelgar.