Hvað mætir útlendingum á íslenskum vinnumarkaði?
Í nýlegri skýrslu Alþýðusambandsins er sjónum sérstaklega beint að brotastarfsemi á vinnumarkaði og launaþjófnaði1. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á þessi brot sem starfsfólk verður fyrir. Rannsóknin byggir á gögnum úr þremur ólíkum áttum. Í fyrsta lagi voru skoðaðar launakröfur fjögurra af stærri aðildarfélögum Alþýðusambandsins og þær greindar m.t.t. bakgrunns félagsmanna og launagreiðenda. Í öðru lagi voru skoðaðar niðurstöður spurningakönnunar Gallup um brot á kjarasamningsbundnum réttindum einstaklinga á aldrinum 18–35 ára hér á landi. Í þriðja lagi var sama spurningakönnun framkvæmd á úrtaki erlendra
félagsmanna innan aðildarfélaga ASÍ.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til verulegrar tvískiptingar íslensks vinnumarkaðar. Annars vegar er það sá veruleiki sem meirihluti launafólks býr við þar sem brot á kjarasamningum eru fátíð eða nær óþekkt. Hins vegar er það veruleikinn sem mætir erlendu launafólki, ungu fólki og hinum tekjulægstu þar sem launaþjófnaður hleypur á hundruðum milljóna króna ár hver. Meira en helmingur allra krafna sem aðildarfélögin fjögur gerðu á síðasta ári voru fyrir hönd erlendra
félagsmanna en þeir eru aðeins um 19% launafólks á íslenskum vinnumarkaði og um 25% af félagsmönnum umræddra stéttarfélaga.
Um helmingur allra krafna kemur úr hótel-, veitinga- og ferðaþjónustu en hæstu launakröfurnar eru gerðar á fyrirtæki í mannvirkjagerð. Niðurstöður spurningakönnunarinnar sem Gallup gerði fyrir ASÍ gefa vísbendingu um með hvaða hætti launaþjófnaður kunni að birtast á vinnumarkaði. Í könnuninni voru þátttakendur spurðir hvort þeir teldu að brotið hafi verið á sér á vinnumarkaði, t.d. á réttindum um lágmarkskjör, um álagsgreiðslur, vinnutíma o.s.frv.
Þegar svör þátttakenda voru skoðuð eftir bakgrunni mátti greina að erlent launafólk, tekjulágir og yngri aldurshópar eru í hættu á að verða fyrir brotum á
kjarasamningsbundnum kjörum og réttindum. Líklegra er að þessir hópar verði fyrir brotum á formreglum (t.d. fá ekki launaseðla eða ráðningarsamning), þeir eru líklegri til að verða fyrir réttindabrotum (t.d. fá ekki veikindarétt, orlofslaun), lágmarkslauna og álagsbrotum (t.d. fá ekki greitt eftir kjarasamningi, fyrir yfirvinnu eða greitt stórhátíðarálag).
Þau brot sem birtast í áðurnefndri rannsókn ASÍ eru eingöngu hluti af heildarumfangi launaþjófnaðar á íslenskum vinnumarkaði. Í fyrsta lagi endurspegla launakröfur eingöngu þau mál þar sem atvinnurekendur hafa ekki brugðist við ábendingum stéttarfélaga um leiðréttingu.
Meirihluti mála fer hins vegar aldrei í kröfuferli. Í öðru lagi ef horft er á niðurstöður spurningakönnunar er einnig ástæða til þess að ætla að hún vanmeti möguleg brot í ljósi þess að úrtakið nær bara yfir almennt úrtak ungs fólks á aldrinum 18-35 ára og svo erlendra félagsmanna með skráð netfang hjá stéttarfélaginu. Staðreyndin er hins vegar sú að lítið er vitað um stöðu þeirra sem eru í mikilli hættu á að verða fyrir brotum á vinnumarkaði en sá hópur ratar ekki í almennt úrtak hjá Gallup og starfsmenn eru oft ekki í sterkum tengslum við stéttarfélag sitt.
Í raun hafa aðstæður erlends launafólks á íslenskum vinnumarkaði verið lítið rannsakaðar þar til á síðustu árum. Íslenskar rannsóknir sýna þó að erlent starfsfólk er að jafnaði með lægri laun en innlendir en munurinn er breytilegur eftir heimalandi og hve lengi einstaklingurinn hefur búið
hérlendis2. Þar að auki er erfitt fyrir erlent starfsfólk að fá menntun og starfsreynslu sína metna3 og fá þannig lægri laun en Íslendingar með sömu menntun4.
Samhengi er á milli þess hve lengi fólk hefur starfað á Íslandi og hve mikil tengsl það hefur við land og þjóð sem gerir það líklega auðveldara að brjóta á þeim sem eru nýliðar á íslenskum vinnumarkaði5.
Skipuleg brotastarfsemi er óháð landamærum og upplýsingar frá ríkislögreglustjóra benda til þess að mansal þrífist hérlendis, þá sérstaklega í mannvirkjagerð og ferðaþjónustu. Greiningardeild ríkislögreglustjóra telur jafnframt að skortur á eftirliti með starfsmannaleigum ýti undir launaþjófnað og félagslegt undirboð6.
Skortur er á aðgerðum til þess að vinna gegn brotastarfsemi og tryggja öryggi starfsmanna og eins hafa brotin hafa töluverð áhrif á aðra en bara þá sem verða fyrir þeim7. Þá reyna margir atvinnurekendur að hámarka hagnað sinn á kostnað launafólks með því að nýta sér þekkingarleysi eða bágar aðstæður þess.
Þrátt fyrir að ekki sé hægt að draga ályktanir um íslenskan vinnumarkað út frá erlendum rannsóknum þá benda þær einnig til að þess að frekar sé brotið á erlendu vinnuafli en innlendu og að það búi því við verri kost en innlendir. Þá kemur fram að mikill munur er á tíðni launaþjófnaðar milli atvinnugreina.
Hér er hægt að lesa skýrsluna í heild sinni