Núna mun ég taka mig til og keyra til Osló, gefa þar skít í umferðarreglurnar og mæta á Løvebakken á fínum bíl, segir í viðtali við NRK. Hann hefur verið kjörinn þingmaður á norska Stórþingið.
Flokkur hans, Raudt, (Rautt), hefur aldrei haft þingmann fyrir Rogaland fylki í Noregi en nú mun Mímir Kristjánsson verða fulltrúi „olíu-sýslunnar“ eins og hún er kölluð í Noregi en þar er átt við Stavanger og nærsveitir.
Sjálfur segir hann það sögulegt að flokkur lengst til vinstri hafi fest sig í sessi með um 4,7 prósenta fylgi á landsvísu.
Hann telur að flokkur hans ásamt Sósíalíska vinstri flokknum muni geta þrýst á Verkamannaflokkinn um samstarf. ,,Úrslitin þýða að við höfum miklu meira tækifæri til að setja meiri pressu á róttæk stjórnmál en við höfum haft, fyrir þessar kosningar segir Mímir Kristjánsson.
Mogginn ræddi við Mími árið 2014 og þar segir hann m.a.:
„Þetta byrjaði þegar ég stóð í flutningum og fann íslenska vegabréfið mitt og sá að það var útrunnið fyrir tveimur árum síðan. Það voru því tvö ár síðan ég hafði síðast verið Íslendingur, formlega séð,“ segir Mímir Kristjánsson, rithöfundur. Hann vinnur nú að bók sem á að fjalla um ástandið á Íslandi í dag, og hvers vegna Íslendingar hafi flykkst til Noregs í stórum stíl.
Mímir á íslenskan föður og norska móður. Hann er uppalinn í Stavangri í Noregi og starfar nú sem blaðamaður hjá norska blaðinu Klassekampen. Hann er virkur þátttakandi í þjóðfélagsumræðunni í Noregi, hann var formaður ungliðahreyfingar flokksins Rödt og svo er hann pistlahöfundur í Aftenposten, þar sem hann sér um að gagnrýna vinstri-flokkana á norska Stórþinginu, frá sjónarhóli vinstrimanns. Hann er höfundur tveggja bóka, De superrike og Slik blir du superrik.
„Mér var hugsað til landsins, og hvernig ástandið sé hérna. Ég kem hingað um það bil einu sinni á ári, en Norðmenn hafa lítið frétt af landinu eftir að öldurnar tók að lægja í kjölfar fjármálakreppunnar. Það er því mitt verkefni að finna út hvort kreppan sé búin, og hvernig áhrifin voru á samfélagið,“ segir Mímir.
Áður en hann kom ákvað hann að fletta upp ætt sinni á Íslendingabók, en Norðmönnum finnst bókin afar merkileg. „Ég bjóst við að finna í ættinni hetjur og fræknimenni, en svo kom í ljós að forfaðir minn kom til Íslands frá Noregi með svartadauðann. Það fyndna er að hann lifði veikina af sjálfur, en var svo stunginn til bana stuttu seinna, svo hann fékk makaleg málagjöld,“ segir Mímir og hlær.
Aðspurður hvernig tilfinning hans sé fyrir þróuninni í íslensku samfélagi segir Mímir tvennt vekja athygli sína. „Annars vegar er það hugsunarhátturinn að það er allt gert til að skapa störf og gróða. Það sést þegar litið er á ferðaþjónustuna, hóteluppbyggingu og gjaldtöku á ferðamannastöðunum. Allt er til sölu ef það skapar einhver störf. Íslendingar gætu seinna séð eftir þessu þegar ástandið í landinu batnar, sérstaklega þegar þeir eru að selja náttúruna sína.“