,,Stórfyrirtæki og skipulagðir glæpahópar, mörkin eru stundum óskýr“
,,Liðin er sú tíð að fólk geti skýlt sér á bak við furðu og hneykslan þegar kemur að umræðu um spillingu á Íslandi. Hún er víðfeðm, hún er vel skjalfest og hún viðgengst því sem næst óáreitt. Kerfislæg linkind gagnvart spillingu einkennir íslenskt stjórnarfar. Uppljóstranir um starfsemi Samherja í Namibíu og Angóla sem birtist í fréttaflutningi Kveiks og Stundarinnar eru sláandi. Fyrir liggja sannanir um skipulagt arðrán á auðlindum annarrar þjóðar, sannanir um gríðarlegar, reglubundnar mútugreiðslur til embættismanna og stjórnmálamanna frá fyrirtæki sem hefur verið flaggberi íslensku útgerðarinnar og byggt auðsöfnun sína á nýtingu íslenskra auðlinda.
,,Söfnun kvóta á hendur fárra lágmarkar greiðslur í sameiginlega sjóði“
Fyrirtækið byggir auð sinn á fiskveiðistjórnarkerfi sem hvetur til svona hegðunar. Söfnun kvóta á hendur hinna fáu er afleiðing þess að pólitísk tengsl séu nýtt til að treysta það eignarhald, lágmarka greiðslur í sameiginlega sjóði og hámarka hagnað.
Það eru mistök að horfa fram hjá uppsprettu og rót vandans en það er tilgangslaust að þingmenn komi hér hver á fætur öðrum og lýsi því hversu hrikaleg spillingarmál Samherja séu. Við vitum það öll. Það sem fólk vill heyra frá okkur núna er hvað við ætlum að gera í málinu. Við þurfum að horfa á ákveðnar staðreyndir. Í a.m.k. nokkur ár hefur verið vitað að eitthvað óeðlilegt væri í gangi í Namibíu. Fjölmiðlar hafa flutt af því fréttir. Það verður að svara því hvers vegna ekki var brugðist við þeim rökstudda grun. Einnig er auðvelt að sjá á fyrirtækjaskrám landa á borð við Kýpur og Panama að fjölmargir Íslendingar eiga fyrirtæki í þeim löndum. Það er ekki ólöglegt en lögmætar ástæður fyrir að stunda viðskipti í gegnum aflönd eru fáar. Við megum ekki vera svo barnaleg að halda að notkun skattaskjóla hafi óspilltan tilgang.
Tvenns konar öfl í heiminum hafa náð fullkominni alþjóðavæðingu, stórfyrirtæki og skipulagðir glæpahópar. Mörkin eru stundum óskýr. Ríkisstjórnir hafa staðið sig illa í að bregðast við þeirri glæpsamlegu hegðun sem viðgengst í skjóli alþjóðlegrar leyndarhyggju. Fyrir því er ein ástæða, viljaleysi. Mörg ríki ýta vísvitandi undir undanskot og vonda hegðun. Þau græða á því, stundum hagkerfi landsins en oftar pólitíska stéttin. Pólitísk spilling birtist ekki bara í formi mútugreiðslna. Greiðara aðgengi, styrkir, völd o.fl. fylgir.
Í skýrslu starfshóps forsætisráðherra um traust á stjórnvöldum segir:
„Ef ekki er brugðist við mögulegri gagnrýni og hún ekki tekin alvarlega er það út af fyrir sig spillingarhvati.“
Það verður að taka hart á ásýnd spillingar, ekki bara sannaðri spillingu. Um 60 lönd í heiminum veita alþjóðlegum stórfyrirtækjum leynd. Alþjóðlegur vinnuhópur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, FATF, er skásta tilraun alþjóðasamfélagsins til að sporna við þeirri hegðun. Frá vormánuðum 2018 hefur hópurinn beint til Íslands tilmælum um ágalla í lögum, regluverki og verklagi og skort á fjármunum til að berjast gegn peningaþvætti. Ísland var fyrir stuttu sett á gráan lista hópsins fyrir að hafa ekki brugðist nægilega vel við.
Starfsemi Samherja í Afríku setur veru Íslands á þeim lista í nýtt og alvarlegra samhengi. Við vitum nú að Bank of New York Mellon stöðvaði millifærslu frá bankareikningi kýpversks félags tengdu Samherja stuttu áður en DNB NOR lokaði á viðskipti sama félags vegna hættu á peningaþvætti. Fjórum dögum síðar lokaði DNB NOR á félag Samherja á Marshall-eyjum. Á fimm árum sendi kýpverska félagið um 3 milljónir evra til félags í Rússlandi í gegnum aflandsþjónustuna Common World Trust Ltd. sem komið hefur við sögu í peningaþvættismálum. Það er ekki langt stökk að ætla að tengsl séu milli þessarar starfsemi og þess að Ísland sé nú á gráum lista.
Forseti. Fyrir okkur liggja spurningar um hvað við ætlum að gera til að bregðast við þeim augljósu vandamálum og veikleikum sem birtast okkur í núverandi ástandi. Hver verða viðbrögð ríkisstjórnar, viðbrögð stjórnvalda og viðbrögð Alþingis? Það þarf að auka gagnsæiskröfur til íslenskra aðila sem eiga erlendar eignir. Það þarf að koma á öflugu og virku eftirliti með fjármagnsflutningum. Það þarf að lögfesta ákvæði um afhjúpendavernd og tryggja öryggi þeirra sem uppljóstra um glæpi. Við verðum að víkka út skilgreiningu á lágskattaríkjum og birta leiðbeinandi lista um slík ríki og kveða á um tilkynningarskyldu til skattyfirvalda um beina og óbeina eignarhlutdeild í lögaðilum í lágskattaríkjum.
Það er auðvitað margt fleira sem þarf að gera en þetta er byrjunarreitur. Við getum reynt að kafa djúpt í þetta mál og það er orðið mjög tímabært að við gerum það.
Ég ætla að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að bregðast skjótt við beiðni minni um þessa sérstöku umræðu. Hún skiptir máli. Við vitum af þessari spillingu. Við getum ekki látið eins og við séum saklaus lengur og við þurfum ekki að þykjast hissa. Það sem við þurfum að gera er að laga þetta.“
https://gamli.frettatiminn.is/2019/11/14/thingmadur-stigur-fram-thad-stod-til-ad-raena-thessari-nyju-audlind-fyrir-framan-nefid-a-thjodinni/
https://gamli.frettatiminn.is/2019/11/14/vafningsmalid-orka-energy-landsrettarmalid-panama-skjolin-grai-listinn-og-samherjaskjolin/