Smölun í Birtufirði í september reyndist algjör sæla. Við urðum þó fyrir því óláni að nákominn ættingi sem sá um barnapössun, greindist með covid þegar heim var komið úr smalamennsku. Þetta setti auðvitað allt á annan endann þar sem ég, Hildur Aðalbjörg Ingadóttir rek sjúkraþjálfun og maðurinn minn vinnur sem skurðlæknir á Akranesi.
Allir beint í sóttkví! Fyrir rest þótti almættinu við yngsta dóttirin hæfastar til að takast á við það verkefni. Eftir fjórar þéttar vikur í einangrun, var veirunni pakkað saman. Maðurinn las konu sína og færði henni spánýja Benelli útskriftargjöf! Þá var ekkert annað í stöðunni en að rífa upp útidyrahurðina og taka strauið uppí hlíðina, æsispennt og barnlaus með nýja haglabyssu í hægri og eiginmanninn í vinstri.
Ég var bókstaflega að springa af allskonar uppsöfnuðu. Það hafði veiðst vel árið á undan þannig að við þutum upp hlíðina sigurviss með gleymda væntingarstjórnun! Norðanátt og rigningarsuddi neðst en snjókoma efst sem rétt náði að festa sig. Landslagið minnti á breytuboli allra 8 ára stúlkna. Allt hvítt þegar horft var með vindi en auð jörð upp í vindinn. Ekki fjöður, ekki spor.
Af og til heyrðist eitt og eitt skot úr fjarðlægð sem okkur þótti fyrst gleðilegt en snérist fljótt upp í geðvonsku eina. Fimm tímum síðar þegar ég var um það bil að klára að endurinnrétta þvottahúsið í huganum, flugu upp fimm rjúpur skammt frá okkur, ljónstyggar og geðvondar. Þær höfðu sér okkur fyrst og við áttum ekki von. Frábært, engin rjúpa í kistunni og ekki áttum við von á að þær yrðu eitthvað fleiri. Maður verður svo hissa þegar rjúpan blasir óvænt við og erindið er nánast gleymt! Við hrukkum alveg í gang við þetta og ekki löngu síðar sjáum við þrjár rjúpur sem láta ekki hafa mikið fyrir sér, nokkuð spakar og við komumst vel í færi.
Þær voru kurteisari við frúnna sem náði tveimur, sú þriðja flaug upp og eiginmaðurinn tók á rás á eftir henni. Ekki leið á löngu þar til hún steinlá. Á leiðinni til baka rákumst við á annan fjagra fugla hóp og náðum við tveimur af þeim. Fimm rjúpur í allt. Miðað við aðstæður voru við mjög sátt við það. Þessi ferð nægði í góða og gleðilega jólamáltíð og sálin endurnærð.