Meiri borg, kröftugur og sjálfbær vöxtur – opinn fundur 18. nóvember
Streymisfundur á breytingum á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010–2030 verður haldinn miðvikudaginn 18. nóvember, kl. 17. Kröftugur og sjálfbær vöxtur til lengri framtíðar er meginþema í viðauka aðalskipulags til 2040. Drög að umfangsmiklum breytingum á Aðalskipulagi Reykjavíkur hafa verið lögð fram til kynningar.
Hægt er að gera athugasemdir við tillögurnar fram til 27. nóvember nk. Í tillögunum felst heildaruppfærsla á stefnu aðalskipulagsins um íbúðarbyggð að því er fram kemur á vef Reykjavíkurborgar, þar segir jafnframt:.
Auk þess eru boðaðar stöku breytingar á völdum atvinnusvæðum og samgönguinnviðum. Gert er ráð fyrir því að tímabil aðalskipulagsins verði framlengt til ársins 2040 og sett eru fram ný meginmarkmið í nokkrum málaflokkum.
Leiðarljós við mótun tillagna er að tvinna betur saman áætlanir um uppbyggingu húsnæðis, við áform um byggingu og styrkingu vistvænna samgöngukerfa; Borgarlínu, stofnleiða Strætó bs, hjólastígakerfis og gönguleiða.Það er í takti við Loftslagsstefnu borgarinnar til ársins 2040, leiðarljós svæðisskipulags til ársins 2040, meginmarkmið gildandi aðalskipulags, húsnæðisáætlun og Græna planið.
Ætlunin er að skapa forsendur fyrir kröftugri vöxt borgarinnar samhliða því að styðja markmið um sjálfbæra borgarþróun, kolefnishlutleysi árið 2040, vernd náttúrusvæða, líffræðilega fjölbreytni og samkeppnishæft, lífvænlegt, réttlátt og fjölbreytt borgarsamfélag. Breytingartillögur verða kynntar ásamt umhverfismati á fundinum og verður hægt að senda fyrirspurnir fyrirfram á netfangið skipulag@reykjavik.is. Frekari upplýsingar um drögin má finna á adalskipulag.is og um dagskrá fundar á reykjavik.is/adalskipulag-2040
Fundinum er streymt á síðu fundarins og facebooksíðu Reykjavíkurborgar.
Dagskrá fundarins
- Ávarp. Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar og varaformaður skipulags- og samgönguráðs opnar fundinn.
- Reykjavík 2040. Endurbætt stefna um íbúðarbyggð og framlenging skipulagstímabils. Haraldur Sigurðsson deildarstjóri hjá umhverfis- og skipulagssviði kynnir tillögur að breytingum á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030.
- Helstu umhverfisáhrif breytingartillagna. Bryndís Skúladóttir, sérfræðingur hjá VSÓ-ráðgjöf, fer yfir helstu niðurstöður umhverfisskýrslu
- Björn Axelsson skipulagsfulltrúi Reykjavíkur og Þorsteinn Rúnar Hermannsson samgöngustjóri Reykjavíkur verða á fundinum og til svara að loknum erindum ásamt framsögumönnum.
- Fundarstjóri er Steinunn Rögnvaldsdóttir.
Tenglar
Ítarleg frétt um helstu breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur
Heimasíða streymisfundar og slóð á útsendingu kl. 17. miðvikudaginn 18. nóvember
Tengt efni:
https://gamli.frettatiminn.is/10/11/2020/allur-rekstur-ad-drepast-vid-laugaveg/