Vegfarandi á Örlygshafnarvegi, skammt frá Látravatni á Vestfjörðum, kom í morgun að bifreið sem hafði oltið út af veginum. Ökumaðurinn, sem var einn í bílnum, reyndist látinn.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Vestfjörðum. Þar segir að svo virðist sem að bifreiðin hafi runnið út af veginum og oltið minnst eina veltu þar til hún staðnæmdist. Í tilkynningu lögreglu segir enn fremur:
„Lögregla, sjúkra- og slökkviliðsmenn frá Patreksfirði fóru á vettvang. Beita þurfti klippum og öðrum viðeigandi búnaði til að losa ökumann úr bílflakinu. Tildrög slyssins eru til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum en einnig er aðili frá rannsóknarnefnd samgönguslysa á vettvangi. Fjölskyldu hins látna hefur verið tilkynnt um slysið.
Rannsókn stendur yfir og ekki tímabært að fjalla frekar um það að svo stöddu.“