Læknadóp kostaði 14.000 manns lífið

Nálægt 14.000 Kanadamenn dóu af völdum ofskammts af ópíóðalyfjum frá ársbyrjun 2016 fram á mitt þetta ár. Yfir 17.000 hafa verið lögð inn á sjúkrahús með ópíóðaeitrun á sama tímabili. Kanadísk heilbrigðisyfirvöld segja misnotkun ópíóðalyfja alvarlegt og vaxandi heilbrigðisvandamál og fátt benda til þess að það breytist í bráð. Fjallað var um málið á vef Rúv á dögunum en þar segir:
50 sinnum sterkara en heróín
Fentanýl er afar sterkt, morfínskylt verkjalyf, um 100 sinnum sterkara en morfín og 50 sinnum sterkara en heróín. Er því iðulega blandað við heróín til að auka enn á áhrifin. Dauðsföllin hafa nær öll verið rakin til ofskammts sem tekinn hafi verið í ógáti. Því óttast rannsakendur að almenningur átti sig einfaldlega ekki á því, hversu algengt það sé að fíkniefni sem seld eru á götunni séu blönduð sterkum og stórhættulegum efnum á borð við fentanýl.
Það eykur svo enn á vandann, að síðustu tíu ár hefur ávísunum lækna á ópíóðalyf fjölgað mikið. Er nú svo komið að Kanada er í hópi þeirra þjóða, sem neyta mest af ópíóðalyfjum miðað við höfðatölu.