Geggjuð ferð að baki!
,,Takk, takk, takk fyrir allt Gylfi. Takk, Gylfi, fyrir að gera barnið mitt að hamingjusamasta barni sem ég hef séð í langan tíma ? “ Segir Dagmar Ýr, móðir Gunnars Holger sem að varð fyrir hrottalegu einelti þar sem að honum var strítt nánast á hverjum degi, annað hvort með andlegu eða líkamlegu ofbeldi.
Dagmar Ýr lýsir ferðinni þannig: ,,Í nóvember, í kjölfarið af fréttunum af Gunnari Holger, hafði Gylfi Þór Sigurðsson samband við mig. Hann vildi bjóða Gunnari á Everton leik, því honum þótti svo leiðinlegt að heyra hvernig þetta væri hjá Gunnari í skólanum.
Gylfi bauð okkur Gunnari til Liverpool á leik hjá Everton. Hann reddaði því líka að Gunnar fengi að koma á æfingarsvæðið hjá Everton að horfa á æfingu hjá þeim.
Eftir æfinguna þá kom Gylfi og spjallaði við Gunnar og gaf honum innrömmuð fótboltaspjöld af sér. Gylfi áritaði takkaskónna hans Gunnars og landsliðsbolina okkar.
Daginn eftir var svo leikurinn og þvílík upplifun sem það var! Vorum í Sky Sports Studio boxinu, með mat og drykki eins og við vildum. ?
Eftir leikinn þá vorum við Gunnar sótt upp í boxið og Gylfi spjallað við Gunnar, labbaði með okkur útá fótboltavöllinn og gaf honum treyjuna sem hann var í á leiknum, áritaða ?
Gylfi sagði við Gunnar að hann þyrfti að vera oftar á leik hjá þeim því þeir unnu loksins. Gunnar heldur því fram núna að hann sé lukkudýr Everton, að hann þurfi að vera á öllum leikjum Everton og að liðið eigi hann.
Þetta var svo trufluð upplifun og geggjað að sjá Gunnar svona hamingjusamann.
Takk, takk, takk fyrir allt Gylfi. Takk, Gylfi, fyrir að gera barnið mitt að hamingjusamasta barni sem ég hef séð í langan tíma ?“
,,Honum er strítt nánast á hverjum degi, annað hvort andlegt eða líkamlegt ofbeldi“
Í nóvember birti Dagmar Ýr, móðir Gunnars Holger neðangreinda færslu á Facebook um eineltið:
,,Ég. Get. Ekki. Meir.
Flestir sem þekkja Gunnar Holger vita hversu góður hann er. Hann er með stórt og gott hjarta og skilur engann útundan. Ef einhver meiðir sig eða er grátandi þá er hann eiginlega alltaf fyrstur á staðinn til þess að athuga hvað sé að og hvernig hann geti reddað málunum.
Í ágúst byrjaði hann í 1.bekk, mjög spenntur og pínu stressaður fyrir þessu stóra skrefi.
En þessi spenningur breyttist mjög fljótt i kvíða. Kvíða fyrir því að fara í skólann. Á hverjum morgni er basl að koma honum í skólann, af því að hann vill ekki fara.
Og kvöldin, fyrir svefn, fara í það að hann talar um hvort hann megi ekki vera í fríi frá skólanum daginn eftir. Á morgun verði hann sko veikur og geti ekki farið í skólann. Og ef hann segir að hann verði veikur næsta dag og kemst að því að það er fótboltaæfing þann dag, þá er hann bara veikur á meðann skólinn er, ekki þegar það er fótboltaæfing. Af því að honum líður vel á æfingu, sem er að miklu leiti þökk sé þjálfurum hans og að hann elskar fótbolta.
Honum er strítt nánast á hverjum degi, annað hvort andlegt eða líkamlegt ofbeldi. Hann hefur verið skorinn með blýanti hjá auganu, hent útí vegg með hausinn á undann sem olli tilheyrandi höfuðverk og flökurleika restina af deginum.
Hann hefur komið heim eftir skóla og sagt mér hvað sumir eru að segja við hann.
„Fokkaðu mömmu þinni“ er eitthvað sem stendur svolítið uppúr þar sem hann talar frekar oft um það. Mjög hissa á þessu orðbragði „mamma, þetta er svo ljótt, maður á ekki að segja svona“.
En núna í morgun gjörsamlega bugaðist ég og er búin að vera gráti nær í allann dag. „Mamma, má ég hætta við að fara í skólann? Það er alltaf verið að stríða mér“
Við erum að tala um að jafnaldrar hans og krakkar uppí amk 4.bekk eru að stríða honum.
Hvernig getur maður svarað 6 ára barni þegar það spyr að þessari spurningu??
Bæði kennarar og skólastjórnendur hafa gert sitt allra besta að finna lausnir á þessu og eiga þau hrós skilið fyrir það!
En þegar ástandið hefur verið svona þessa fyrstu 3mánuði og verður mjög líklega svona áfram, þá verður maður ráðalaus. Maður veit ekki hvernig maður á að bregðast við.
En sem betur fer þá er Gunnar mjög sterkur. Hann er ennþá, þrátt fyrir allt, sami góði, fyndni og hjálpsami strákurinn.
Með þessum skrifum langar mig að vekja athygli á einelti. Við vitum öll hversu skaðlegt einelti getur verið. Við vitum öll hvernig getur farið fyrir þeim sem lenda í einelti.“