Mjög mikið var að gera hjá lögreglu síðdegis og í gærkvöld en 55 verkefni komu inn á borð hennar á því tímabili. Minniháttar árekstar, aðstoð vegna ölvunar, bifreiðastöður, fallslys vegna hálku og fleiri mál sem snúa að aðstoð við almenning.
Rétt fyrir kl.18:00 voru tveir aðilar handteknir á Hringbraut í vesturbæ Reykjavíkur en þeir reyndust vera á stolnu ökutæki. Jafnframt reyndust þeir vera undir áhrifum lyf og fíkniefna. Aðilarnar bíða þess að verða hæfir til skýrslutöku.
Á sömu stundu var tilkynnt um rán í Breiðholti en þar var reynt að stela myndavél af aðila eftir að honum hafði verið ógnað með hnífi, skemmdir urðu á myndavélinni. Hinn handtekni dvelur í fangageymslu og bíður yfirheyrslu.
Bifreið var stöðvuð í Breiðholti í nótt en þar reyndu tveir ungir menn, 16 og 17 ára sem að voru í bifreiðinni, að hlaupa af vettvangi, en voru stöðvaðir skömmu síðar. Höfðu þeir báðir verið að aka bifreiðinni, án þess að hafa öðlast ökuréttindi. Annar ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna. Ekki náðist í foreldra og var málið afgreitt með aðkomu Barnaverndar.