Tilboð Samtaka atvinnulífsins til verkalýðsfélaganna hljóðar, samkvæmt heimildum fréttastofu RÚV, upp á að laun upp að 600.000 krónum hækki um 20.000 krónur á ári, þ.e. að mánaðarlaun verði 20.000 krónum hærri í þriggja ára samningi. Þannig að eftir 3 ár verði mánaðarlaun orðin 60.000 kr. hærri en þau eru í dag á mánuði og að laun umfram það hækki um 2,5 prósent.
Ekki sé gert ráð fyrir breytingum á vinnutíma í tilboðinu. Fulltrúar Eflingar, VR, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur munu koma með gagntilboð á samningafundi sem hófst klukkan 11:15.
Kröfugerð launþegahreyfinga gagnvart Samtökum atvinnulífsins eru m.a.:
- 425.000 króna lágmarkslaun í lok samningstímans
- Ákvæði sem ógildir samninginn ef ójöfnuður eykst
- Meira lýðræði og meðákvörðunarréttur starfsmanna á vinnustöðum
- Óskert starfsaldursréttindi þegar skipt er um starf
- Stytting vinnutímans í 32 stundir á viku við lok samningstímans
- Sektir fyrir brot á kjarasamningum
- Sömu kjör fyrir öryrkja og aldraða