Lögreglan á Suðurlandi greinir frá því að framhald aðgerða séu í skoðun vegna flugvélarinar sem liggur á botni Þingvallavatns eftir flugslys sem þar varð.
,,Í síðustu viku var unnið að leit að Flugvélinni TF ABB og flugmanni ásamt þremur farþegum. Sú vinna bar þann árangur að flugvélin fannst í Ölfusvatnsvík og skammt frá henni lík þeirra fjögurra sem voru um borð. Lykillinn að því að vélin og síðan lík þeirra sem voru um borð fundust var skönnun sem fór fram með fjölgeislamæli á Gavia kafbáti frá fyrirtækinu Teledyne og síðan endurstaðsetning þeirra þegar þeim var lyft en þá var notaður fjölgeislamælir á bát frá Sjótækni ehf.
Sá bátur hafði auk kafbátsins verið notaður við leit að flugvélinni. Kafarar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, Landhelgisgæslu og Sérsveitar ríkislögreglustjóra ásamt starfsmönnum Köfunarþjónustunnar ehf sem var með pramma fyrir þá að athafna sig frá sáu um að lyfta líkunum frá botni með fjarstýrðum kafbát fyrirtækisins og færa í hendur kafara sem komu þeim fyrir í segli og þau síðan hífð um borð í bát sem flutti í land.
Öllum aðgerðum var streymt á skjá í stjórnstöðvarbíl Landsbjargar á vatnsbakkanum en þaðan fór fram formleg stýring aðgerðanna. Þar höfðu rannsóknarlögreglumenn lögreglunnar á Suðurlandi og fulltrúi Rannsóknarnefndar samgönguslysa yfirsýn yfir aðgerðir og skráning þeirra var framkvæmd þar. Til að aðgerðin gæti gengið þurfti stöðugt að sigla bátum um víkina til að varna því að lagnaðarís myndaðist á henni. Ráðgert hafði verið að kafa alveg niður á botn eftir líkunum og búa þau þar undir flutning þannig að tryggt væri að munir sem þau hefðu meðferðis og hefðu sönnunargildi glötuðust ekki. Við þær aðstæður sem þarna voru þótti það ekki réttlætanlegt og því var gripið til þessa ráðs.
Samstarf allra aðila við þessa aðgerð, sem og leitina alla hefur verið til fyrirmyndar, bæði við þennan einstaka þátt í aðgerðinni sem og frá upphafi leitar. Lögreglustjórinn á Suðurlandi vill nota þetta tækifæri til þess að þakka öllum, sem að komu, þeirra aðkomu, stóra sem smáa. Engin leið er að telja þá alla hér upp, slíkur er fjöldinn. Í fyrradag var fundað um framhald aðgerða en nokkuð ljóst að það plan sem þar varð til, verður ekki sett í gang fyrr en hlýnar og unnt verður að ganga í verkefnið án utanaðkomandi veðurfarslegra truflana.“
Önnur mál
Einungis 6 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku. 2 voru kærðir fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar og 3 ökumenn reyndust við afskipti lögreglu vera að aka þrátt fyrir að hafa verið sviptir ökurétti áður.
Einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum lyfja og annar fannst sofandi ölvunarsvefn undir stýri í bíl sínum á Suðurlandsvegi skammt frá Rauðalæk. Sá svaf úr sér í fangageymslu og gat litlar skýringar gefið á vegferð sinni þegar af honum rann.
Á laugardag brann jeppabifreið til kaldra kola við Höfn og deginum fyrr brann snjóruðningsbifreið sem var við vinnu í Kömbum Slys urðu ekki á mönnum.
Í liðinni viku var unnið í nánu samráði við barnavernd Árborgar vegna myndskeiða sem fundust er sýna ofbeldi barna gegn hverju öðru á Selfossi. Vísbendingar eru um að nokkuð sé um að boðað sé til átaka og þau tekin upp og þeim síðan deilt á samfélagsmiðlum eða á netinu á einstökum síðum. Aðilar þeirra mála sem hér komu við sögu fengnir á stöð og rætt við þá ásamt foreldrum þeirra og barnavernd. Viðkomandi hafa ekki náð sakhæfisaldri en það dregur ekki úr alvarleika málsins. Foreldrar eru hvattir til að taka samtal með börnum sínum og gera þeim grein fyrir alvarleika þessa.“ Segir lögreglan á Suðurlandi