Hugmyndafræðin um að fé fylgi nemendum að fullu óháð því hvaða skóla þeir sækja er ekki ný af nálinni í menntakerfinu, þó svo að hún sé það á háskólastiginu. Í anda þess að fé fylgi nemanda geta háskólarnir fallið frá skólagjöldum sínum gegn því að fá fullt opinbert framlag.
Það er sanngjarnt að nemendur hafi jöfn tækifæri til náms, óháð rekstrarformi skóla, og að þeir sem velji að stunda nám í sjálfstætt starfandi háskóla standi jafnfætis þeim sem stundi nám í hinum opinberu skólum. Ríkið á ekki að gera upp á milli.
Boð til sjálfstætt starfandi háskóla kemur í kjölfar nýrrar árangurstengdrar fjármögnunar háskólastigsins sem var kynnt í september 2023. Fram til þessa hafa sjálfstætt starfandi háskólar á Íslandi fengið skert framlag með hverjum nemenda frá ríkinu en hafa þess í stað innheimt skólagjöld. Undanfarin ár og áratugi hafa framlög til sjálfstætt starfandi háskóla verið 60-80% af því sem þeir fengju ef rekstrarform þeirra væri opinbert. Skert framlög hafa óhjákvæmilega leitt til þess að þeir hafa innheimt skólagjöld sem geta fyrir þriggja ára grunnnám hvers nemanda numið um 1,5-2 m.kr. og tveggja ára meistaranám um 1,5-2 m.kr. Samtals geta gjöldin fyrir 5 ára háskólanám því verið um 3-4 m.kr.
Það þarf að fjölga nemendum í háskólum á Íslandi. Í því samhengi má t.d. nefna unga karlmenn sem sækja mun síður í háskólanám en ungar konur. Í nýlegri könnun á meðal útskriftarnema í framhaldsskólum kom í ljós að mun algengara er að ungir menn telji sig síður hafa efni á að sækja háskólanám en ungar konur. Nauðsynlegt er að fjölga háskólamenntuðum körlum, en hlutfall karla á aldrinum 25-34 ára sem lokið hafa háskólanámi er 29% hér á landi en 41% innan OECD. Væri hlutfallið eins á Íslandi myndi það eitt og sér fjölga sérfræðingum um meira en 7500. Jafnframt þarf að fjölga nemendum í raun-, tækni- og listgreinum, enda er Ísland eftirbátur annarra Norðurlanda þegar kemur að fjölda nemenda í þessum greinum.
Með því að gefa nemendum aukið val er stærri og fjölbreyttari hópi fólks gert kleift að stunda nám í greinum sem skipta miklu máli fyrir samkeppnishæfni landsins til framtíðar og stórauka tækifæri til náms á Íslandi. Nú er það skólanna að vega og meta hvernig þeir bregðast við en næstu daga mun ráðherra háskólamála eiga frekari samtöl og samráð við nemendur og starfsfólk skólanna. Vonast er til að fá svör frá skólunum sem fyrst svo að nemendur þeirra skóla sem hafa áhuga á að ganga að tilboðinu njóti þess sem fyrst og helst strax í haust. Listaháskóli Íslands hefur þegar gefið út að skólinn muni falla frá skólagjöldum.
Hvað fela þessar breytingar í sér?
Í stuttu máli felur breytingin í sér að ríkið greiði jafn mikið með öllum nemendum í tilteknu námi, en ekki eftir því hvaða skóla nemendurnir sækja. Það er því einfaldlega verið að leggja til að ríkið geri ekki upp á milli nemenda eftir því hvaða háskóla þeir velja.
Til dæmis hefur ríkið verið að borga meira með laganemum í Háskóla Íslands en laganemum við Háskólann á Bifröst. Til þess að leiðrétta þessa mismunun hefur sjálfstætt starfandi háskólum verið boðið að hljóta fullt framlag með hverjum nemanda gegn því að þeir hætti að innheimta skólagjöld.
Hvers vegna að ráðast í þessar breytingar?
Um er að ræða sanngirnismál sem stuðlar að jöfnum tækifærum og valfrelsi. Þar að auki styðja breytingarnar við ólík rekstrarform í skólakerfinu. Það er sanngjarnt að hætta að gera upp á milli nemenda eftir rekstrarforminu einu.
Gríðarlega mikilvægt er að auka tækifæri til háskólanáms á Íslandi. Allar mælingar sýna að gera þarf miklu betur í þessum málum, bæði þegar kemur að fjölda útskrifaðra og gæðum námsins. Í þessu skyni hefur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra lagt ríka áherslu á að fjölga nemendum og efla háskólana frá stofnun ráðuneytisins. Að láta fé fylgja nemanda eins og hér er lagt til er stórt skref í þessa átt.
Kannanir sýna að strákar telja sig ekki hafa efni á að fara í nám. Ísland er langt fyrir neðan Norðurlönd þegar kemur að menntun drengja og þróunin er ennþá í ranga átt sem er mikið áhyggjuefni.
Hvaða áhrif munu þessar breytingar hafa?
Stærsta breytingin er að nemendur munu ekki lengur þurfa að borga skólagjöld hjá háskólunum sem samþykkja boðið. Fyrir vikið munu fleiri geta farið í háskóla eins og mikil þörf er á og atvinnulífið hefur kallað eftir. Við eigum allt undir aukinni verðmætasköpun og til þess þarf fleiri sérfræðinga á ýmsum sviðum.
Með þessu er jafnframt skapaður samkeppnisgrundvöllur háskólanna og hætt að mismuna þeim eftir því hvort þeir séu opinberir eða sjálfstætt starfandi. Nemendur sem velja að fara í nám í sjálfstætt starfandi háskólum borga margar milljónir og eru miklu skuldsettari að námi loknu. Það getur ekki verið markmið í sjálfu sér.
Þetta eykur jafnframt frelsi háskólanna til ráða því hvernig þeir fjármagna sig, annað hvort að innheimta áfram skólagjöld eða þiggja fullt framlag með nemendum sínum.
Þá mun fyrirkomulagið auka samkeppni á milli háskólanna um nemendur sem sjá sér loksins fært að stunda háskólanám þegar skólagjöld eru ekki lengur hindrun.
Er þetta ekki óábyrgt á þessum verðbólgutímum?
Um óverulega fjármuni að ræða þegar litið er til þess að breytingin rúmast innan fjárheimilda. Til þess að setja breytinguna í samhengi þá greiðir hið opinbera u.þ.b. 75% framlag til sjálfstætt starfandi háskóla. Heildarframlag hins opinbera til háskóla landsins nemur um 40 milljörðum en samanlögð skólagjöld nema tæplega 3 milljörðum. Þar að auki sýna rannsóknir að tækifæri stjórnvalda til að örva hagvöxt án þess að auka þenslu sé einmitt að finna á háskólastiginu.
Hvað mun þetta kosta?
Endanlegur kostnaður ræðst af nokkrum þáttum; t.d. hversu margir skólar þiggja boðið og hvort að þeir velji þennan kost bæði fyrir bakkalár- og meistarastigið. Hver sem niðurstaðan yrði myndi hún að hámarki leiða til aukinna framlaga til sjálfstætt starfandi skóla sem nema um 1,6 milljarði króna, sem rúmast innan ramma fjárheimilda háskólastigsins með nýrri árangurstengdri fjármögnun.
Er verið að ríkisvæða alla háskólana?
Háskólanám á Íslandi er í dag að stærstum hluta fjármagnað með opinberum framlögum, sama hver skólinn er. Aftur á móti hefur stuðningur ríkisins með hverjum nemenda til þessa verið mismikill eftir rekstrarformi skólans sem hann sækir. Þannig hefur stuðningur við nemendur í sjálfstætt starfandi skólum verið á bilinu 60-80% af stuðningi við nemendur í opinberum háskólum. Breytingin sem hér um ræðir felur aðeins í sér að ríkið hætti að gera upp á milli nemenda og greiði jafn mikið með hverjum og einum, óháð því hvaða skóla nemandinn velur. Þetta boð er þannig til þess fallið að auka frelsi háskólanna til að ákvarða hvernig þeir vilja haga fjármögnun sinni og um leið auka getu þeirra til að höfða til nemenda sem annars hefðu ekki séð sér fært að stunda háskólanám vegna kostnaðar. Breytingin hefur ekki áhrif á rekstrarform skólanna.
Af hverju fá skólarnir ekki áfram að rukka skólagjöld þó þeir þiggi 100% framlag?
Það væri eins og ef ríkið greiddi aðgerðir hjá einkareknu heilbrigðisfyrirtæki en læknarnir gætu svo bætt ofan á þá greiðslu frá ríkinu og rukkað sjúklingana um meira.
Það er ekki fjarri lagi að líta á þetta fyrirkomulag eins og heilbrigðiskerfið endar ríkir sátt í samfélaginu um aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu. Fé á að fylgja notanda óháð rekstrarformi, og í þessu tilfelli eru það nemendur. Þannig er valkostum fjölgað um leið og stutt er við fjölbreytt rekstrarform. Val nemenda á háskóla verður því óháð efnahag og þannig fæst heilbrigðari samkeppni – sem svo eykur gæði. Skólunum verður í sjálfsvald sett hvort þeir vilji óbreytt fyrirkomulag eða hljóta fullt framlag með nemendum.
Hvernig eykur þessi breyting samkeppni á milli skólanna?
Það mun styrkja starfsemi allra háskólanna að sitja við sama borð og ná til fjölbreyttari hóps. Það styrkir heilbrigða samkeppni milli háskóla með ólík rekstrarform.
Nemendur sem áður hafa sett skólagjöldin fyrir sig munu nú geta stundað nám við háskóla sem áður hafa innheimt skólagjöld. Þetta á ekki síst við um unga karlmenn sem segjast síður hafa efni á því að fara í háskóla en ungar konur. Skólarnir munu því hafa aukinn hvata til að gera nám sitt betra og meira aðlaðandi enda um fleiri nemendur að bítast. Þannig næst heilbrigðari samkeppni á háskólastigi.
Hvaða áhrif hefur þetta á fjárhag skólanna? Munu þeir þurfa að skera niður?
Áhrifin eru mismikil eftir skólum og margar breytur sem taka þarf tillit til. T.d. felst í því tækifæri fyrir skólana að fá fleiri nemendur ef ekki eru innheimt skólagjöld og hverjum nemanda fylgir fjárveiting. Þannig geta skólarnir aukið tekjur sínar ef þeir fá fleiri nemendur. Hver og einn skóli þarf að áætla væntan nemendafjölda skólans ef ekki eru innheimt skólagjöld. Einnig felur ný árangurstengd fjármögnun í sér að skólarnir geta sótt aukið fjármagn með því að efla rannsóknir og sækja t.d. erlenda styrki. Skólarnir þrír þurfa því að meta hver fyrir sig hvernig þetta kemur út í þeirra tilviki og hvort að valkosturinn sé áhugaverður fyrir þá og nemendur skólans.
Hversu mikið yrði greitt með hverjum nemanda?
Það er mismikið eftir fræðigreinum, sem flokkaðar eru í 4 flokka í samræmi við kennsluaðferðir greinanna og hvað þær krefjast mikils og flókins aðbúnaðar. Vísað er til kynningar sem haldin var síðastliði haust á árangurstengdri fjármögnun háskólanna.
Hvernig líst háskólunum á þetta fyrirkomulag?
Ráðherra hefur þegar átt óformleg samtöl við rektora skólanna og þeir hafa jafnframt fengið formlegt bréf frá ráðuneytinu þar sem tilkynnt er um þennan valkost. Heilt yfir eru skólarnir jákvæðir fyrir þessari útfærslu og þeim er í sjálfsvald sett að ákveða hvað þeir velji fyrir sína skóla.
Listaháskóli Íslands hefur nú þegar tilkynnt að skólinn ætli að fella niður skólagjöld.
Hvaða undirbúningsvinna hefur átt sér stað?
Lagastofnun Háskóla Íslands hefur unnið álitsgerð um breytingarnar, gerð var samanburðarkönnun á fyrirkomulagi fjármögnunar á öðrum Norðurlöndum auk þess sem mikil vinna býr að baki útreikningum um áhrif breytinganna. Jafnframt hafa bæði formleg og óformleg samtöl átt sér stað milli ráðuneytisins og sjálfstætt starfandi háskólanna.
Hvaða áhrif myndi breytingin hafa á innheimtu skólagjalda í sjálfstætt starfandi skólum?
Þeir skólar sem samþykkja boðið myndu aðeins innheimta skrásetningargjöld, sem þekkjast hjá opinberum háskólum í dag.
Hefur þetta einhver áhrif á Háskóla Íslands?
Nei, aukin framlög til annarra háskóla yrðu ekki tekin af Háskóla Íslands eða öðrum háskólum– enda eru meiri fjármunir í nýju árangurstengdu fjármögnuninni sem var kynnt síðastliðið haust.
Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir sókn í þágu háskólastigsins og auknum framlögum til skólanna. Þessi breyting á framlögum til sjálfstætt starfandi rúmast innan þessarar aukningar og því eiga hvorki Háskóli Íslands né aðrir opinberir skólar að verða fyrir skerðingu.
Hvað verður um hagnað eða fjárhagslegan ábata sjálfstætt starfandi skóla?
Það eru takmarkanir á því hvað gera má við opinbert fjármagn.
Í lögum um háskóla er kveðið á um að háskóli skuli ekki rekinn með fjárhagslegum ágóða að markmiði og gildir það jafnt um ríkisháskóla og sjálfstætt starfandi. Í tilfelli sjálfstætt starfandi háskóla gengur fyrrnefnt ákvæði því framar þeim almennu reglum sem gilda um rekstrarform viðkomandi skóla. Þessi meginregla setur jafnframt mark sitt á stofskjölhluaðeigandi háskóla, þ.m.t. reglur þess efnis að tekjuafgangi skuli einungis varið til starfsemi viðkomandi skóla.
(Álitsgerð Lagastofnunar HÍ 2023)
Hvernig er þessu háttað á Norðurlöndunum?
Fyrir ESB/EES/Svissneska nemendur gildir eftirfarandi:
- Danmörk: Engin skólagjöld ef ríkisframlag. Fjölbreytt rekstrarform. Örfáir sérhæfðir & fámennir skólar með skólagjöld án ríkisframlags.
- Finnland: Engin skólagjöld ef ríkisframlag. Allir háskólar nýlega orðnir sjálfseignastofnanir.
- Svíþjóð: Engin skólagjöld ef ríkisframlag. Fjölbreytt rekstrarform.
- Noregur: Rannsóknaháskólar allir opinberir og án skólagjalda, flestir nemendur þar. Fagháskólar af ýmsum rekstrarformum, sumir með fullt framlag og án skólagjalda, þrír með skert framlag og skólagjöld. Þetta eru litlir, sérhæfðir skólar: í viðskiptum, hönnun og trúmálum. Massi norskra nemenda er í skólagjaldalausu námi.