Umboðsmaður telur allt benda til þess að samráðsleysi dómsmálaráðherra við ríkisstjórn vegna málsins hafi ekki verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti og bendir forsætisráðherra á mögulegar leiðir til úrbóta.
Umboðsmaður hefur nú lokið athugun sinni á málinu með bréfum til forsætisráðherra og dómsmálaráðherra. Í bréfinu til þess fyrrnefnda minnir hann á að reglur stjórnarskrár og laga um Stjórnarráð Íslands miði að því að tryggja viðhlítandi samstarf og samvinnu milli ráðherra þannig að ríkisstjórn starfi samhent að stefnumálum sínum. Láti ráðherra farast fyrir að virða þessar reglur feli það ekki eingöngu í sér brot á formreglu heldur stuðli slík háttsemi að því að það pólitíska samráð, sem lög og stjórnarskrá mæli fyrir um að fram skuli fara á vettvangi ríkisstjórnar, sé sniðgengið.
Í þessu samhengi sé það jafnan í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að ráðherra nýti eftir föngum vettvang ríkisstjórnar til samráðs við aðra ráðherra og til að jafna hugsanlegan ágreining. Slík vinnubrögð hljóti einnig að vera til þess fallin að ráðherrar skiptist síður á skoðunum á opinberum vettvangi og ríkisstjórn birtist borgurunum sem samhentur hópur stjórnenda. Þetta hafi því þýðingu fyrir það traust sem almenningur eigi að geta borið til þess að æðsta stjórn landsins vinni mál og afgreiði af fagmennsku og yfirvegun. Í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi voru í málinu verði ekki betur séð en framganga dómsmálaráðherra hafi verið ósamrýmaleg kröfum um vandaða stjórnsýsluhætti. Er í því sambandi einkum horft til þess að forsætisráðherra hafði látið í ljós ósk sína um að málið yrði rætt á fundi ríkisstjórnar.
Þá lýsir umboðsmaður sig ósammála þeirri skoðun forsætisráðherra að vandséð sé að ekki verði lengra gengið í sérstöku verklagi viðvíkjandi því hvort og hvernig mál ráðherra séu borin upp í ríkisstjórn. Í starfsreglum ríkisstjórnar megi t.d. kveða með skýrari hætti á um skyldur ráðherra að þessu leyti. Að lokum bendir umboðsmaður á að í núgildandi siðareglum fyrir ráðherra, sem hann hafi eftirlit með, sé ekkert fjallað um siðferðilegar skyldur ráðherra m.t.t. samvinnu og samskipta þeirra sín á milli, hvort heldur sem er innan eða utan ríkisstjórnarfunda.
Bréf umboðsmanns til forsætisráðherra
Bréf umboðsmanns til dómsmálaráðherra
Umræða