Það er hægt að finna húsnæðislán á betri kjörum en námslán og fjöldi þeirra sem sækja um námslán hefur fækkað um helming á síðustu árum. Vextir námslána hafa aldrei verið hærri og íslendingar eiga evrópumet yfir fjölda háskólanema sem fullyrða að án launaðrar vinnu gætu þau ekki verið í námi. Þá hafa töluvert færri sótt sér háskólamenntun á Íslandi en á öðrum norðurlöndum.
Landssamband Íslenskra Stúdenta (LÍS) hefur ýtt úr vör herferð vegna endurskoðunar á lögum um Menntasjóð námsmanna. Yfirskrift herferðarinnar er Háskólamenntun í hættu og er markmiðið að vekja athygli á vandamálum í íslenska námslánakerfinu og afleiðingar þeirra fyrir stúdenta, háskólamenntaða og samfélagið í heild.
Hlutverk Menntasjóðs námsmanna er að tryggja stúdentum tækifæri til náms óháð efnahag og félagslegri stöðu.
Í nýútgefinni skýrslu frá OECD kemur fram að 41,9% ungs fólks á aldrinum 25-34 ára hafa aflað sér háskólamenntunar á Íslandi, samanborið við 49% í Danmörku, 49,2% í Svíþjóð og 55% í Noregi.
LÍS telur þessar staðreyndir, auk fjölda annarra vankanta Menntasjóðs námsmanna, tilefni til að spyrja mikilvægra spurninga um aðgengi landsmanna að háskólamenntun. Ráðamenn þurfa að svara eftirfarandi spurningu: Fyrir hverja er í boði að mennta sig?
Á vefsíðu LÍS má finna ítarlegar upplýsingar um kröfur stúdenta: https://studentar.is/haskolamenntunihaettu