,,Heldur elítan virkilega að þau geti hrætt okkur frá því að nota stjórnarskrárvarinn rétt okkar?“
Helgi Magnússon, styrktaraðili núverandi forseta og eigandi Fréttablaðsins, er greinilega kominn með mig á heilann því nú birtist hver greinin á fætur annarri mér til heiðurs í blaðinu. Það er ekki laust við að maður verði upp með sér þegar áhuginn fyrir manni er svona mikill og vænti ég þess einna helst að innan skamms birtist vonbiðillinn með rós í hönd á tröppunum hjá mér.
Ef ásinn þeirra á hendi er að væna mig um að valda kostnaði fyrir þjóðina, bjóði ég mig fram, þá hef ég nú áhyggjur af því hvert lýðræðið í landinu er að fara.
Heldur elítan virkilega að þau geti hrætt okkur frá því að nota stjórnarskrárvarinn rétt okkar til framboðs og kosninga? Vilja þau sem sagt að við hættum alfarið að halda kosningar og afhendum þeim bara lyklana að landinu án nokkurrar mótbáru?
Ég minni á að núverandi forseti skrifaði undir tvenn orkulög í kjölfar þriðja orkupakkans þrátt fyrir fjölda áskorana um þjóðaratkvæðagreiðslu.
Eins staðfesti hann ríkisstjórnarsáttmála þar sem komið er inn á að selja Landsvirkjun: „Eigendastefna Landsvirkjunar mun taka mið af orkustefnunni.“ Munu þessi axarsköft kosta þjóðina miklu meira en kosningar í júní. Ég tala nú ekki um þegar orkupakki 4 og 5 hafa fengið að fljóta í gegn ásamt frekara eignaafsali í boði ESB.
Þjóðin þarf eitthvað allt annað en já-mann elítunnar á Bessastöðum. Málskotsrétturinn er í húfi og ég, eins og fleiri landar mínir, efast stórlega um áhuga núverandi forseta á honum. Ég fagna því þess vegna að nú þegar sé kominn frambjóðandi sem storkar peningaöflunum í samfélaginu og býst ég allt eins við að þegar fram líði stundir verði þeir fleiri.
Áfram lýðræðið!
https://gamli.frettatiminn.is/elitan-er-rikistryggd-og-verdtryggd-hvetur-folk-til-ad-skila-lyklunum-til-katrinar/