Fyrsta íslenska raforkukauphöllin tekur til starfa í dag. Fyrirtækið Vonarskarð ehf sér um rekstur kauphallarinnar en hún hefur verið í undirbúningi í þó nokkurn tíma. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið veitti kauphöllinni leyfi í lok síðasta árs.
Kauphöllin á að einfalda innkaup á rafmagni þar sem hægt verður að kaupa rafmagn án útboðs. Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vonarskarðs segir í viðtali við ríkisútvarpið sem fjallaði um málið, að kauphöllin muni trygga orkuöryggi fyrirtækja og einstaklinga til lengri tíma. Löngu tímabært hafi verið að koma slíku verkefni á fót hér á landi.
„Kauphöllin er bara eðlileg þróun á raforkumarkaði í öllum löndum. Kauphallir hafa verið til erlendis eins og í Noregi síðan árið 1990 þannig við erum svona 30 árum á eftir þeim í þessari þróun. Kauphöllin gengur út á það að draga saman hver eru raforkuverð í landinu og það er eðlileg krafa að það sé betur uppi á borðinu, gagnsæi í því hver eru verð á raforku í landinu hverju sinni.“
Þátttakendur í kauphöllinni eru öll orkufyrirtæki landsins að Landsvirkjun undanskilinni sem stendur í skerðingum vegna slæmrar vatnsstöðu á hálendinu.
„Það er vissulega óheppilegt að Landsvirkjun skuli ekki vera með. Það vill til að Landsvirkjun er akkúrat að fara í gegnum mjög erfiðan vetur þannig þau sáu sér ekki fært um að vera með akkúrat núna þegar við byrjuðum,“ segir Bjarki.