Samtökin Orkan okkar hefur staðið fyrir undirskriftarsöfnun á vefsíðu samtakanna síðastliðnar fimm vikur (hófst 8. apríl) þar sem skorað er á alþingismenn að hafna „staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 97/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (þriðji orkupakkinn).“
Auk þess sem þeim tilmælum er beint til „sameiginlegu EES-nefndarinnar að Ísland verði undanþegið innleiðingu þriðja orkupakkans enda er Ísland ekki tengt raforkumarkaði ESB.“
Málið var tekið út úr utanríkismálanefnd fyrir hádegi í gær og tekið upp til 2. umræðu í dag. Fyrirvarinn var því stuttur til að safna saman eiginhandarundirritunum en rafrænu undirskriftirnar voru yfirfarnar og prentaðar út kl 19:00 í gærkvöldi (14. maí). Ekki reyndist unnt að safna öllum eiginhandarundirritunum saman en tæplega 14.000 undirskriftir (nákvæm tala 13.480) voru afhentar þingforseta í dag . Undirskriftarsöfnunin heldur áfram þar til atkvæðagreiðsla um málið hefur farið fram.
Guðjón S. Brjánsson, 1. varaforseti Alþingis, tók á móti fulltrúum samtakanna í þinghúsinu í dag kl. 16:30 þar sem hann veitti undirskirftarlisunum viðtöku úr höndum Frosta Sigurjónssonar, eins af talsmönnum samtakanna. (Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, var erlendis í dag og gat þar af leiðandi ekki veitt undirskriftunum viðtöku).