Séra Davíð Þór Jónsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju, telur hörð ummæli sín um þinglið og ráðherra Vinstri grænna ekki koma því við að formaður flokksins og forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, sé fyrrverandi sambúðarkona hans.
Hann hefur meðal annars kallað ríkisstjórn Katrínar fasistastjórn og sagt sérstakan stað í helvíti fyrir þinglið og ráðherra flokksins. Lét hann ummælin falla vegna brottvísana á 300 einstaklingum, samkvæmt viðtali við hann hjá Mbl.is þar sem fjallað var um málið. ,,Ég bjó aldrei með forsætisráðherra Íslands, það var allt önnur manneskja sem ég bjó með.“ Sagði Davíð þór og notar myndlíkingu.
Fyrir sjö árum ræddi Davíð við Morgunblaðið um sambandið við Katrínu. Voru þau saman í sjö ár en sambandið endaði árið 2004. „Í kjölfarið á sambandsslitunum tók við eitt ár af helvíti sem endaði í tárum inni á Vogi. Ég var bara búinn á því. Og síðan þá hef ég verið að byggja upp líf mitt á nýjum forsendum,“ sagði Davíð meðal annars við Morgunblaðið.