-2.2 C
Reykjavik
Þriðjudagur - 7. febrúar 2023
Auglýsing

Frumvarp um rafrettur orðið að lögum

Auglýsing

Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Ný lög um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur taka gildi 1. mars 2019.  Frumvarp heilbrigðisráðherra sem fjallar um innflutning, markaðssetningu, notkun og öryggi þessa varnings og ráðstafanir til að sporna við notkun barna á rafrettum var samþykkt á Alþingi í vikunni.


Ýmsar breytingar voru gerðar á frumvarpinu í meðförum þingsins en áform um lagasetningu hvað þessi mál varðar komu einnig til kasta þess á 146 löggjafarþingi. Þá var deilt um ýmis útfærsluatriði frumvarpsins; einna  helst þá ákvörðun að fella reglur um rafrettur undir lög um tóbaksvarnir en einnig ýmis fleiri atriði. Frumvarpið var tekið til efnislegrar endurskoðunar og lagt fram á þessu þingi sem sjálfstæð löggjöf um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.
Frumvarpið var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum og segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ánægjulegt að tekist hafi að sætta ólík sjónarmið og ná lendingu í þessu máli.
Með setningu laganna hefur tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins, um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum verið innleidd að hluta til í íslensk lög.

Markmið

Að veita heimildir til innflutnings, sölu, markaðssetningar og notkunar rafrettna og tryggja gæði og öryggi rafrettna og áfyllinga fyrir rafrettur á markaði og tryggja með tiltækum ráðstöfunum að börn geti ekki keypt rafrettur.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að settar verði reglur um innflutning, sölu, markaðssetningu og notkun á rafrettum og áfyllingum fyrir þær. Gert er ráð fyrir að bannað verði að selja eða afhenda ungmennum yngri en 18 ára slíkar vörur auk þess sem þeim yrði óheimilt að selja þær. Lagt er til að bannað verði að selja þær í skólum og á öðrum stöðum sem ætlaðir eru til félags-, íþrótta- og tómstundastarfs barna og ungmenna og þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt. Jafnframt er lagt til að bannað verði að nota rafrettur á þeim stöðum þar sem tóbaksnotkun er þegar bönnuð.
Gert er ráð fyrir að Neytendastofa hafi eftirlit með öryggi varanna og merkingum til að lágmarka hættu á slysum við notkun þeirra og tryggja að rafrettur og áfyllingar séu barnheldar. Enn fremur er gert ráð fyrir að bannað verði að auglýsa rafrettur og áfyllingar og að fjölmiðlanefnd hafi eftirlit með því.
Að auki eru lögð til ákvæði um hámarksstyrkleika, stærð áfyllinga, innihaldsefni í áfyllingar sem og hámarksstærð tanka einnota rafrettna og hylkja. Með samþykkt frumvarpsins yrði tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins, um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi fram­leiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum, að hluta til innleidd í íslensk lög.