Fjórar manneskjur vöknuðu við reykskynjara
Brunavarnir Árnessýslu voru kallaðar út í nótt vegna elds í sumarbústað ásamt lögreglunni á Suðurlandi og sjúkraflutningum HSU.
Útkallið kom rétt fyrir fimm í morgun. Í bústaðnum voru fjórar manneskjur sem vöknuðu við reykskynjara og komust þess vegna út þrátt fyrir mikinn reyk og hita.
Sjúkraflutningar HSU á suðurlandi fluttu öll fjögur á sjúkrahús vegna gruns um reykeitrun.
Þegar útallið barst var slökkvistöð Brunavarna Árnessýslu í Hveragerði að vinna í heitavatnsleka og var slökkvistöð Brunavarna á Selfossi því kölluð í brunann. Vel gekk að slökkva eldinn þegar komið var á vettvang þrátt fyrir mikinn eld. Rannsókn á eldsupptökum er í höndum lögreglu.
,,Það er okkur ljóst og það verður aldrei of oft sagt að reykskynjarar og slökkvitæki geta bjargað mannslífum.“ Segir í tilkynningu frá Brunavörnum Árnessýslu