Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra kynnti í dag 22 verkefni sem fá úthlutun á þessu ári úr sjóði vegna styrkja til verkefna sem stuðla að eflingu hringrásarhagkerfis á Íslandi. Hæstu styrkir sem veittir eru til einstakra verkefna eru 20 milljónir króna.
Verkefnin eru af margvíslegum toga, fjölbreytt og til marks um mikinn áhuga á hringrásarhagkerfinu um allt land. Heildarstyrkupphæð er 230 milljónir króna, þar af eru 141 milljónir veittar vegna nýsköpunarverkefna og 89 milljónir vegna annarra verkefna.
Markmið með styrkveitingunum er að:
- a) Efla úrgangsforvarnir á Íslandi, s.s. til að draga úr myndun úrgangs.
- b) Bæta flokkun úrgangs hér á landi.
- c) Efla tækifæri til endurvinnslu úrgangs sem næst upprunastað.
- d) Stuðla að aukinni endurvinnslu og annarri endurnýtingu úrgangs sem fellur til hér á landi.
- e) Efla tækifæri til nýsköpunar og þróunar á búnaði sem dregur úr magni úrgangs eða auðveldar flokkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu úrgangs.
„Innleiðing hringrásarhagkerfis er mikilvægur liður í að Ísland nái markmiðum sínum í loftslagsmálum. Það er því ánægjulegt og veitir tilefni til bjartsýni að skynja hversu mikill áhugi er á þessum málaflokki og verður áhugavert að fylgjast með framþróun þeirra verkefna sem hér hljóta styrk,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Styrkirnir voru auglýstir í mars sl. og bárust ráðuneytinu alls 95 umsóknir og var heildarupphæð umsókna 1.250 milljónir króna. Matshópur lagði mat á allar umsóknir og gerði í kjölfarið tillögur til ráðherra um veitingu styrkja.
Eftirtalin verkefni hlutu styrk:
Umsækjandi | Heiti Verkefnis | Styrkupphæð |
Atmonia | Framleiðsla á nítrati úr hliðarafurðum verksmiðjuferla | 7.000.000 |
EFLA | Hringrásarveggur | 12.000.000 |
EFLA | Auðlindahringrás í rekstri | 8.000.000 |
Gefn | Græn efnavara úr úrgangi og útblæstri | 20.000.000 |
Gerosion | Notkun plastúrgangs í stað kola í kísilmálms- og málmblendiframleiðslu | 11.200.000 |
Grænni byggð | CIRCON: circular economy in construction | 6.700.000 |
IÐA | Endurnýting byggingarefna á Íslandi | 20.000.000 |
Jarðgerðarfélagið | Bokashi gerjun fyrir sveitarfélög | 12.500.000 |
Landeldi | Lífrænn áburður úr laxeldi | 20.000.000 |
Matís | Lífkol úr landeldi | 2.000.000 |
Matís | Örverur til auðgunar fiskeldisseyru | 9.500.000 |
Orkugerðin | Blöndun kjötmjöls og mykju við áburðardreifingu | 12.000.000 |
Plastplan | Samþætting plastendurvinnslu og afurðasköpunar | 8.500.000 |
Primex | Heilsubót úr hliðarstraumum kítínvinnslu | 9.400.000 |
RVK Tool Library | Hringrásarsafn | 10.000.000 |
Sláturhús Vesturlands | Verðmætasköpun með minnkun sláturúrgangs | 7.000.000 |
SORPA | Matvæli í umbúðum móttaka og vinnsla | 20.000.000 |
Spjarasafnið | SPJARA þjónustu- og hönnunarþróun | 10.000.000 |
Úrvinnslan | Endurvinnsla á sláturúrgangi | 20.000.000 |
Vistorka | Brauðmyljarinn | 1.400.000 |
Vistorka | Söfnunarkerfi fyrir notaða matarolíu og fitu | 2.000.000 |
Vistorka | Leifur Arnar á landsvísu | 800.000 |
Alls | 230.000.000 |