Sjávarútvegur 2022 í Höllinni
Sjávarútvegssýningin SJÁVARÚTVEGUR 2022/ ICELAND FISHING EXPO 2022 verður haldin 21. – 23. september í LAUGARDALSHÖLL. Að sögn Ólafs M. Jóhannessonar framkvæmdastjóra sýningarinnar er mikið verið að bóka sýningarpláss.
„Við erum að bóka sýningarpláss á hverjum degi og það er nánast orðið uppselt á sýninguna en það er enn möguleiki á að bæta aðeins við hjá okkur. Það eru allar tegundir af fyrirtækjum er þjóna íslenskum sjávarútvegi að bóka bása. Bæði stærstu fyrirtæki á þessu sviði og svo minni fyrirtæki. Þá er mikið af nýjum fyrirtækjum að koma inn á sýninguna sem er vissulega ánægjulegt.“
Hverju þakkar þú þennan mikla áhuga á sýningunni á næsta ári?
„Það er ýmisslegt sem kemur til. Í fyrsta lagi er mikil eftirvænting hjá sýnendum að hitta viðskiptavini bæði nýja og svo gamla og gróna viðskiptavini. Þá er Laugardalshöllin eina sérhannaða sýningarhöllin á Íslandi og einstaklega vel staðsett til dæmis með stór hótel í næsta nágrenni. Þá ákváðum við að hækka ekki básaverðið frá seinustu sýningu 2019 svona til að koma til móts við fyrirtækin eftir Kóvít. Viðskiptavinir kunna að meta slíkt.“ Segir Ólafur og bætir við.
„Og síðast en ekki síst þá er sýningin á afar góðum markaðstíma. Ég er búinn að halda sýningar stórar og smáar í 25 ár og reynslan kennir að það er vænlegast til árangurs að halda sýninar að hausti. Þegar menn eru komnir úr sumarfríum og svo er að hefjast nýtt kvótaár. Slík skiptir afar miklu máli og líka að fyrirtækin hafi góðar tíma eftir sýninguna til að fylgja eftir samtölum við sýnendur og hugsanlega viðskiptavini. Þess vegna er seinnipartur september afar góður sýningartími.“ Sagði Ólafur að lokum.
Allar frekari upplýsingar um Sjávarútvegssýninguna næsta haust veita Ólafur, framkvæmdastjóri olafur@ritsyn.is 698 8150 og Inga, markaðsstjóri inga@ritform.is 898 8022