2.8 C
Reykjavik
Laugardagur - 28. janúar 2023
Auglýsing

Álagning opinberra gjalda á lögaðila vegna rekstrarársins 2020

Auglýsingspot_img

Nýjar fréttir

Auglýsingspot_img
Ríkisskattstjóri hefur nú lokið álagningu opinberra gjalda á lögaðila vegna rekstrarársins 2020. Álögð gjöld nema samtals 180,3 ma.kr. og lækka um 9,5 ma.kr. á milli ára, en breytingar einstakra skatta eru bæði til hækkunar og lækkunar. Rétt er að hafa í huga að hér er um að ræða svokallað frumálagningu sem getur tekið breytingum síðar.

Álagningin ber óhjákvæmilega merki Covid-faraldursins og þeirra áhrifa sem hann hefur haft bæði á hagkerfið og stefnu stjórnvalda. Tekjustofnar drógust saman samhliða minni efnahagsumsvifum og auknu atvinnuleysi sem ásamt aðgerðum stjórnvalda, m.a. lækkun álaga og auknum stuðningi við atvinnulífið, birtist nú í lægri tekjum ríkissjóðs. Ber þar hæst mikil viðbót í endurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja og lækkun bankaskatts.

Álagt tryggingagjald lækkar um 5 ma.kr. milli ára og birtist þar breytt staða á vinnumarkaði en atvinnuleysi náði nýjum hæðum í því ástandi sem faraldurinn skóp árið 2020. Aðgerðir stjórnvalda á borð við hlutabótaleið er helsta ástæða þess að tekjur af tryggingagjaldi lækkuðu ekki frekar og að tekjuskattur einstaklinga hækkaði um 1,5% milli ára.

Gjaldskyldum félögum fækkar um 242, eða 0,5% milli ára og eru nú 48.088 en félögum sem greiða tekjuskatt fækkar um 286, eða 1,7% milli ára. Áframhald er á þeirri góðu þróun að skilum framtala fjölgar hlutfallslega. Fyrir lok álagningar höfðu borist meira en 86% framtala og er það örlítið hærra hlutfall en í fyrra, en um leið umtalsverð aukning frá fyrri árum. Betri og tímanlegri skil framtala fyrir álagningu eru til þess fallin að fækka kærum og endurákvörðunum og skapa með því meiri vissu um að álagningin skili sér í ríkissjóð.

Endurgreiðsla ofgreiddra opinberra gjalda lögaðila nam um 24 mö.kr. í ár samanborið við 20 ma.kr. árið á undan og hækkaði því um 20% milli ára.